Erlent

Læknar segja að gefa eigi reykingamönnum rafsígarettur

Samúel Karl Ólason skrifar
Í 200 blaðsíðna skýrslu segir að mögulega gæti það að reykja rafrettur, eða vaping, bætt líf milljóna.
Í 200 blaðsíðna skýrslu segir að mögulega gæti það að reykja rafrettur, eða vaping, bætt líf milljóna. Vísir/Getty
Hvetja ætti reykingafólk til að reykja rafsígarettur og jafnvel á að gefa þeim slík tæki til að hjálpa þeim við að hætta að reykja. Royal College of Physicians, eða Konungleg samtök breskra lækna, segja rafsígarettur mun heilsusamlegri og þær hjálpi reykingamönnum við að hætta að reykja.

Í 200 blaðsíðna skýrslu samtakanna segir að mögulega gæti það að reykja rafrettur, eða vaping, bætt líf milljóna. Þá er bent á að sú umræða að rafsígarettur leiði til almennra reykinga eigi ekki við rök að styðjast.

BBC bendir þó á að reykingafólk í Bretlandi verði að kaupa sér rafrettur og geti ekki fengið þær frá heilbrigðisstofnunum. Fyrst þurfi rafrettur að vera skráðar sem hjálpartæki við því að hætta að reykja, sem felur í sér langt lagaferli.

Frá því að sala rafretta hófst í Bretlandi árið 2007 hefur sala þeirra aukist jafnt og þétt. Frá 2012 hafa þær verið vinsælli en nikótín tyggjó og plástrar sem hjálpartæki reykingafólks við að hætta að reykja.

Samkvæmt áðurnefndri skýrslu nota einn af hverjum tuttugu Bretum rafrettu og þar af eru nær allir að reyna að hætta reykja eða hættir að reykja hefðbundnar sígarettur.

Þegar kemur að langtíma heilsuskaða segja læknarnir að rafrettur séu minnst 95 prósent öruggari en hefðbundnar sígarettur. Enn séu þó einhverjir óvissuþættir varðandi langtímaáhrif þeirra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×