Erlent

Einn Sýrlendingur deyr á hverjum 25 mínútum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Aleppo þar sem fregnir berast af mannfalli borgara.
Frá Aleppo þar sem fregnir berast af mannfalli borgara. Vísir/EPA
Erindreki Sameinuðu þjóðanna varðandi málefni Sýrlands hvetur Bandaríkin og Rússland til beita sér fyrir því að vopnahléið í Sýrlandi verði virt. Staffan de Mistura sagði vopnahléið sem samþykkt var í febrúar ekki vera virt lengur.

Í gær sagði Mistura að síðustu tvo sólarhringa hefði Sýrlendingur dáið á 25 mínútna fresti og að einhver hefði særst á 13 mínútna fresti.

Þá bárust fregnir af því í gær að minnst 20 almennir borgarar hefðu fallið í loftárásum stjórnarhers Sýrlands á sjúkrahús og nærliggjandi heimili í borginni Aleppo. Meðal hinna látnu voru börn og eini barnalæknir borgarinnar.

Samkvæmt BBC hafa einnig borist fregnir af því að stjórnarherinn, studdur af loftárásum Rússa, undirbúi stórsókn gegn borginni. Aukið ofbeldi og átök hafi ógnað friðarviðræðum sem fari fram í Genf á milli deiluaðila.

Viðræðunefnd uppreisnarmanna dró sig í hlé frá viðræðunum í síðustu viku til að mótmæla meintum brotum stjórnarhersins á vopnahléinu og að ekki hefði tekist að koma nauðsynlegum byrgðum til íbúa bæja og borga sem setið er um í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×