Innlent

Sjaldan meiri ánægja með störf Ólafs Ragnars

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson Vísir/Anton Brink
60,7 prósent svarenda í könnun MMR á dögunum sögðust vera ánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, en könnunin var framkvæmd dagana 4.-5. apríl síðastliðinn.

Í fréttatilkynningu frá MMR segir að ánægja með störf forseta hafi sjaldan mælst meiri, en í könnun MMR í febrúar 2013 sögðust 63,6 prósent ánægð með störf Ólafs Ragnars. Í sambærilegri könnun í desember í fyrra kváðust rúm 47 prósent ánægð með störf forseta.

Flestum eru atburðir síðustu vikna eflaust enn í fersku minni en þegar könnun MMR var gerð var mikið um að vera í stjórnmálunum. Þann 5. apríl fór þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á Bessastaði og óskaði eftir heimild forseta til að rjúfa þing og boða kosninga. Í kjölfar þess fundar hélt Ólafur Ragnar blaðamannafund þar sem hann greindi frá því að hann hefði hafnað beiðni ráðherrans.

Í gær tilkynnti Ólafur Ragnar svo að hann ætlaði að bjóða sig fram í sjötta sinn sem forseti og má ætla, af niðurstöðum könnunar MMR nú, að sú ákvörðun hafi glatt marga.

Heildarfjöldi svarenda í könnuninni var 987 einstaklingar. 15 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust vera óánægð með störf Ólafs Ragnars en ánægja með forsetann er afar mismunandi eftir stuðningi við stjórnmálaflokka.

Þannig segjast 99 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Framsókn vera ánægð með störf Ólafs Ragnars borið saman við 27 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Samfylkinguna.


Tengdar fréttir

Tækifæri til þess að endurskilgreina Ólaf Ragnar

Síðan í gær hafa margir viðrað skoðanir sínar gegn endurkjöri forseta Íslands á samfélagsmiðlum undir merkingunni "#nólafur“. Andrés Jónsson telur mótframbjóðendur hans verða að nýta netið betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×