Enski boltinn

Kane segir hvaða þremur orðum Klopp hvíslaði að honum eftir leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Klopp og Kane eiga fallega stund eftir leik.
Klopp og Kane eiga fallega stund eftir leik. vísir/getty
Það vakti athygli eftir 1-1 jafntefli Liverpool og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tók utan um Harry Kane, framherja Tottenham, og átti stuttlega við hann orð.

Kane jafnaði metin í leiknum og tryggði Tottenham mikilvægt stig í baráttunni við Leicester um enska meistaratitilinn eftir að Philippe Coutinho hafði komið Liverpool yfir snemma í seinni hálfleik.

Mark Kanes var nokkuð laglegt en hann fékk boltann í teignum og smellti honum glæsilega í fjærhornið, óverjandi fyrir Simon Mignolet í marki Liverpool. Ekki í fyrsta sinn sem Kane afgreiðir boltann niður í fjær.

Kane hefur sagt frá því hvað það var sem Klopp sagði við sig eftir leikinn en það voru bara þrjú orð. Reyndar tvö þegar þau eru þýdd yfir á íslensku.

„Þvílíkt skot“ eða „What a strike“ var það sem Þjóðverjinn hafði að segja við enska landsliðsframherjann, hann var svo hrifinn af markinu þó það kostaði Liverpool tvö stig. „Ef ég hefði skorað annað mark hefði hann líklega ekki sagt þetta,“ sagði Harry Kane.

Tottenham er með 62 stig eftir 32 umferðir, sjö stigum á eftir toppliði Leicester þegar bæði lið eiga sex leiki eftir. Arsenal er fjórum stigum á eftir Tottenham en á leik til góða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×