Innlent

Opna Joe and the Juice í Alþingishúsinu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Daníel Kári Stefánsson, framkvæmdastjóri Joe and the Juice á Íslandi, segir að verið sé að leggja lokahönd á framkvæmdirnar.
Daníel Kári Stefánsson, framkvæmdastjóri Joe and the Juice á Íslandi, segir að verið sé að leggja lokahönd á framkvæmdirnar. vísir/vilhelm
Samlokustaðurinn Joe and the Juice verður opnaður í Alþingishúsinu. Framkvæmdir við opnun staðarins standa yfir en gert er ráð fyrir að hann verði formlega opnaður þegar þingið kemur aftur saman á mánudag eftir páskafrí.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. „Starfsfólk þingsins og þingmenn höfðu verið að kalla eftir meiri fjölbreytileika og hollari kost en með þessu er verið að koma til móts við það,“ segir Einar.

Joe and the Juice er nú með aðstöðu inni í mötuneyti Alþingis. Hún er í minni kantinum og verður einn starfsmaður á vegum staðarins til að byrja með.vísir/vilhelm
„Kannski erum við með þessu að fylgja eftir einhverjum svokölluðum tíðaranda og fyrir gamlan íhaldsfausk eins og mig er það ekkert endilega eftirsóknarvert, en stundum lætur maður undan tískusveiflum, þó það gerist ekki mjög oft.“

Máltíðir í Alþingishúsinu eru niðurgreiddar og kosta 550 krónur en samlokurnar verða aðeins dýrari. Samloka og lítill safi mun kosta samtals 1.500 krónur en þessi sama máltíð fyrir hinn almenna borgara kostar 2.100 krónur.  Staðurinn verður ekki opinn fyrir gesti og gangandi.



Árni Páll segist ekki vita til þess að útboð hafi farið fram. Ekki fengust upplýsingar hvers vegna það var ekki.Vísir/vilhelm
Ekkert útboð

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist fagna auknum fjölbreytileika. Hann furðar sig þó á því að ekkert útboð hafi farið fram. „Mjög gott og jákvætt að koma með nýbreytni í matarkosti þingmanna. En ég man nú reyndar ekki að það hafi farið fram útboð á þessari þjónustu og velti því fyrir mér hvernig staðið var að því að semja við þetta tiltekna fyrirtæki. Það hefði nú verið eðlilegt ef þetta hefði verið boðið út," segir hann.

Daníel Kári Stefánsson, framkvæmdastjóri Joe and the Juice á Íslandi, segir spenntur fyrir þessu nýja verkefni. „Við erum að leggja lokahönd á framkvæmdirnar en þetta ætti allt saman að verða klárt eftir helgi,“ segir hann. 

Joe and the Juice rekur fimm staði á Íslandi, tvo í flugstöðinni, í Smáralind, Kringlunni og í World Class Laugum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×