Innlent

Geirmundur heljarskinn sagður mongólskur og hörundsdökkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Geirmundur heljarskinn, sem fornsögurnar segja hafa verið göfgastan allra landnámsmanna Íslands, er á norsku sögusafni sýndur mongólskur útlits og mjög hörundsdökkur. Þetta kemur fram í þættinum „Landnemarnir“ á Stöð 2.

Á hinum forna konungsgarði Avaldnesi við Haugasund er rekið sögusafn og þar telja menn að Geirmundur hafi alist upp sem konungssonur. Þar hafi foreldrar Geirmundar, þau Hjör konungur og Ljúfvina drottning, ríkt áður en Haraldur hárfagri braut Noreg undir sig.

Geirmundur heljarskinn á barnsaldri, eins og norska safnið sýnir þann sem sagður var göfgastur allra landnámsmanna Íslands.
Í kafla Landnámabókar um Geirmund heljarskinn segir að faðir hans, Hjör, hafi herjað á Bjarmaland og tekið þar herfangi Ljúfvinu, dóttur Bjarmakonungs, og flutt hana heim til sín til Rogalands í Noregi. 

„Þá ól hún sonu tvo; hét annar Geirmundur, en annar Hámundur; þeir voru svartir mjög," segir í Landnámu. 

„Landnámabók sjálf segir þetta og þeir bræðurnir hafa eitthvað framandi útlit,“ segir Bergsveinn Birgisson, bókmenntafræðingur og rithöfundur, en hann er aðalviðmælandi þáttar Landnemanna um Geirmund heljarskinn. Árið 2014 kom út í Noregi bók hans „Den svarte vikingen“ um Geirmund.

Bergsveinn Birgisson rithöfundur í viðtali á Ögvaldsnesi.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Hjör konungur er sagður fara til Bjarmalands og hann er greinilega þar í verslun og viðskiptum við fólk þar, sem er ekki germanskt. Það er með annað útlit. Það er svart og ljótt, eins og það er kallað,“ segir Bergsveinn. 

„Við vitum að heljarskinn merkir dökkur á hörund,“ segir Marit Synnøve Vea, forstöðumaður á Avaldsnesi, en Bjarmaland er talið hafa verið við Arkangelsk og Hvítahaf í Rússlandi. Á safninu er Ljúfvina, móðir Geirmundar og Hámundar, sögð mongólskrar ættar. 

„Miðað við aðra innfædda í Síberíu á þessum tíma var Sikirtíja-fólkið enn dekkra á hörund, samkvæmt fornum heimildum. Þau voru því hörundsdekkri en gekk og gerðist í Bjarmalandi,“ segir Marit.

Marit Synnøve Vea, forstöðumaður á Ögvaldsnesi, eins og Avaldsnes hét til forna.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.