Innlent

Telja Auði djúpúðgu ættaða frá Kvam við Aurlandsfjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norskir fræðimenn telja, eftir rannsóknir fornsagna, að frægasta landnámskona Íslands, Auður djúpúðga, hafi verið ættuð frá bænum Hvammi við innanverðan Sognfjörð. Þess vegna hafi hún valið sama heiti á landnámsbæ sinn á Íslandi.

Auður djúpúðga nam Dalina alla, kallaði bæ sinn Hvamm og eftir honum fékk Hvammsfjörður nafn. Hún flúði til Íslands frá Skotlandi. Til eru talsverðar frásagnir sem tengjast lífi hennar á Bretlandseyjum. Þar stóðu karlmennirnir í kringum hana í stöðugum bardögum og tóku sér konungstign.

Nær ekkert er vitað um æsku Auðar í Noregi en þar var afi hennar, Björn buna, frægur höfðingi, sagður úr Sogni, þar sem Aurlandsfjörður er meðal innfjarða. Norskir fræðimenn hafa varpað fram þeirri tilgátu að Auður hafi valið landnámsbæ sínum í Dölum nafnið Hvammur vegna þess að æskuslóðir hennar hafi verið á Aurlandi en þar finnst bæjarnafnið Kvam, eða Hvammur. 

Þessi kenning birtist í bók sem út kom í Noregi fyrir fimmtán árum eftir Anders Ohnstad sagnfræðing. Sonur hans, Åsmund Ohnstad, sagnfræðingur og rithöfundur, segir að þá ályktun megi draga af frásögnum sem bendi til að ættmenni Auðar djúpúðgu hafi forðast að sigla um Sognfjörð eftir að Haraldur hárfagri náði völdum í Noregi.

Åsmund Ohnstad, sagnfræðingur og rithöfundur í Gudvangen á Aurlandi.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Haraldur hárfagri átti konungsgarð í Leikangri, norðanmegin í Sognfirði,“ segir Åsmund Ohnstad en íbúar þar voru hliðhollir konungi. Leiðin sem fara þurfti til að forðast Harald hárfagra og hans liðsmenn lá um annan fjörð og síðan fjallveg og hún bendi til þess að þau hafi komið frá Kvam, sem var höfðingjasetur til forna. 

„Með því að fara yfir fjöllin til Aurlands komust Auður og fólk hennar hjá því að sigla framhjá óvinum sínum,“ segir Åsmund. „Samkvæmt þessari kenningu er rökrétt að ætla að hún hafi verið frá Kvam í Aurlandi.“ 

Nánar er fjallað um Auði djúpúðgu í Landnemunum á Stöð 2.

Séð út Aurlandsfjörð, sem er einn af innfjörðum Sognfjarðar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir

Á Náttfari að teljast fyrsti landneminn?

Ingólfur Arnarson, sá er nam land í Reykjavík, er í sögubókunum talinn fyrsti landnámsmaður Íslands. Þingeyingar hafa hins vegar löngum haldið því fram að Náttfari hafi verið fyrstur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.