Lífið

Hann kallar skyr súrmjólk af geit

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hvar í Noregi er norskan líkust íslensku? Í þættinum Landnemarnir á Stöð 2, mánudagskvöld 29. febrúar, er reynt að svara þessari spurningu en fjallað er um norrænar rætur Íslendinga. Við freistum þess að kanna hvort ennþá sé hægt að finna Norðmenn sem Íslendingar geti talað við á eigin tungu, hinu forna norræna tungumáli.

Leitina að þeirri mállýsku norskunnar sem mest líkist íslensku hefjum við í Norður-Noregi, á Lófót. Þar hittum við tvær norskar konur og þegar við spyrjum á íslensku hvort þær skilji okkur þá svara þær í fyrstu játandi að þær skilji smávegis. En þegar við reynum að halda áfram samtalinu á íslensku skella þær bara upp úr og fara að tala um veðrið. 

Konurnar á Lófót skellihlógu og fóru að tala um veðrið.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Einhver hafði hvíslað því að okkur að það væri helst í afdölum innarlega í Sognfirði sem ennþá mætti finna gamalt fólk sem gæti skilið Íslendinga. Og þangað höldum við, inn í botn Aurlandsfjarðar. 

Við bæinn Flåm hittum við 87 ára gamlan öldung, Arne Tokvam. Um leið og við sýnum honum skyrdós spyrjum við hvort hann þekki orðið skyr. Jú, jú, hann þekkir orðið skyr en virðist nota það um aðra afurð: Súrmjólk af geit, svarar hann, og orðin hljóma ekkert ólíkt íslensku. 

Í þættinum verður einnig fjallað um rannsóknir á uppruna íslensku húsdýranna því flest bendir til að landnámsmennirnir hafi flutt þau með sér til Íslands úr eigin heimahögum. Kynningarstiklu þáttarins má sjá hér að ofan.

Hvaðan er íslenski hesturinn ættaður?Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×