Leitina að þeirri mállýsku norskunnar sem mest líkist íslensku hefjum við í Norður-Noregi, á Lófót. Þar hittum við tvær norskar konur og þegar við spyrjum á íslensku hvort þær skilji okkur þá svara þær í fyrstu játandi að þær skilji smávegis. En þegar við reynum að halda áfram samtalinu á íslensku skella þær bara upp úr og fara að tala um veðrið.

Við bæinn Flåm hittum við 87 ára gamlan öldung, Arne Tokvam. Um leið og við sýnum honum skyrdós spyrjum við hvort hann þekki orðið skyr. Jú, jú, hann þekkir orðið skyr en virðist nota það um aðra afurð: Súrmjólk af geit, svarar hann, og orðin hljóma ekkert ólíkt íslensku.
Í þættinum verður einnig fjallað um rannsóknir á uppruna íslensku húsdýranna því flest bendir til að landnámsmennirnir hafi flutt þau með sér til Íslands úr eigin heimahögum. Kynningarstiklu þáttarins má sjá hér að ofan.
