Erlent

Tveir smitaðir af ebólu í Gíneu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Tveir meðlimir sömu fjölskyldunnar greindust með ebólu í gær, samkvæmt stjórnvöldum Gíneu. Lýst var yfir í desember að búið væri að ráða niðurlogum faraldursins og er þetta í fyrsta sinn sem ný smit eru staðfest í landinu.

Fjórir voru rannsakaðir úr sama þorpinu, en á undanförnum vikum höfðu þrír aðrir meðlimir fjölskyldunnar látið lífið. Þau höfðu verið með niðurgang og uppköst.

Fyrr í gær lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin því yfir að nýjasta útbreiðsla ebólu í Síerra Leóne, nágranna Gíneu, hefði verið stöðvuð. Þó var varað við því að veiran gæti stungið upp kollinum aftur þar sem hún getur legið í dvala í þeim sem lifa hana af.

Alls hafa rúmlega ellefu þúsund og þrjú hundruð manns látið lífið vegna veirunnar, eftir að ebólufaraldur hófst í Gíneu í desember 2013. Veiran dreifði sér þaðan til Síerra Leóne og Líberíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×