Erlent

Friðarviðræðunum í Genf frestað um þrjár vikur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Staffan de Mistura ræðir við blaðamenn í Genf.
Staffan de Mistura ræðir við blaðamenn í Genf. vísir/epa
Friðarviðræðum í tengslum við sýrlensku borgarastyrjöldina hefur verið slegið á frest í þar til 25. febrúar næstkomandi. Sáttafundurinn hófst í Genf fyrir tveimur dögum en endaði snögglega eftir að stjórnarhermenn lokuðu á birgðaflutninga til borgarinnar Aleppo. Þetta kemur fram á vef BBC.

„Þetta eru ekki endalok viðræðnanna,“ segir Staffan de Mistura sáttasemjari Sameinuðu þjóðanna. „Deilandi aðilar komu hingað og settust við sáttaborðið og eru áhugasamir um að ná samkomulagi þó lítið hafi gerst á þessum dögum.“

Talsmenn stjórnarandstæðinga segja hins vegar að þeir muni ekki snúa aftur að samningaborðinu nema stjórnvöld í landinu muni veita neyðaraðstoð til fólks sem þarf á henni að halda. Þetta kemur fram á AFP.

Aleppo var stærsta borg Sýrlands áður en stríðið braust út en það hefur staðið i fimm ár og tekið minnst 250.000 mannslíf. Baráttan um borgina hefur staðið yfir í þrjú ár og sex mánuði og stjórna uppreisnarmenn austurhluta hennar að mestu. Stjórnarherinn sækir hins vegar að þeim og náði í dag að slíta á birgðaflutninga til uppreisnarmanna frá Tyrklandi.


Tengdar fréttir

Viðræður í uppnámi vegna loftárása

Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir, og hafa til þess stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Evrópuríkjum og fleiri löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×