Erlent

Viðræður í uppnámi vegna loftárása

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rústir eftir loftárásir í borginni Aleppo í Sýrlandi.
Rústir eftir loftárásir í borginni Aleppo í Sýrlandi. vísir/EPA
Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir, og hafa til þess stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Evrópuríkjum og fleiri löndum.

Harðar loftárásir stjórnarhersins og Rússa á borgina Aleppo hafa þó komið þessum viðræðum í uppnám. Á þriðjudaginn neituðu fulltrúar uppreisnarmanna að mæta til viðræðnanna vegna loftárásanna.

Þetta eru fyrstu meiriháttar loftárásir stjórnarhersins á borgina síðan í haust, þegar Rússar hófu loftárásir sínar á svæði uppreisnarmanna í Sýrlandi.

Bandaríkin hafa skorað á Rússa að hætta loftárásum á meðan friðartilraunir standa yfir, en Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir það ekki koma til greina fyrr en hryðjuverkahópar hafa verið brotnir á bak aftur.

Staffan de Mistura, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna gagnvart Sýrlandi, segir vel geta farið svo að ekkert verði úr viðræðunum, að því er Reut­ers-fréttastofan hefur eftir honum í viðtali sem birt var á svissnesku sjónvarpsstöðinni RTS. Það yrði hins vegar afdrifaríkt.

„Ef þetta mistekst núna eftir að við reyndum tvisvar með ráðstefnum í Genf, þá verður engin von eftir fyrir Sýrland. Við verðum að reyna af öllum mætti að tryggja að þetta mistakist ekki,“ sagði hann í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×