Erlent

Frávísunarkröfu Bill Cosby hafnað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Cosby skömmu eftir að dómarinn hvað upp úrskurð sinn.
Cosby skömmu eftir að dómarinn hvað upp úrskurð sinn. vísir/getty
Dómari í Norristown í Pennsilvaníu hefur hafnað kröfu Bill Cosby þess efnis að fella skuli sakamál á hendur honum niður. Cosby er grunaður um að hafa byrlað Andreu Constand ólyfjan og að hafa síðar misnotað hana á heimili sínu í úthverfi Philadelphia árið 2004. Verði hann sakfelldur getur hann átt von á allt að tíu ára fangelsi. Þetta kemur fram á vef AP.

Frávísunarkrafa Cosby byggði á því að árið 2005 hefði sama mál verið fellt niður af þáverandi saksóknara sýslunnar þar sem sönnunargögn þóttu ekki fullnægjandi. Málið var tekið fyrir að nýju eftir að vitnisburður Constand, úr einkamáli sem hún höfðaði gegn Cosby, var gerður opinber í kjölfar þess að tugir kvenna stigu fram og lýstu ofbeldi Cosby gegn sér.

Meðal vitna varnarinnar var saksóknarinn sem felldi málið niður árið 2005, Bruce Castor. Castor sagði meðal annars að hann teldi að ekki ætti að saksækja Cosby þar sem málið hefði verið fellt niður. „Þetta mál ætti að vera stöðvað hið snarasta. Það var gerður samningur sem ber að halda,“ sagði Castor meðal annars.

Kevin Steele, núverandi saksóknari, sagði hins vegar að ekkert slíkt samkomulag væri að finna í gögnum málsins. Hann sagði einnig að slík samkomulög væru oft gerð þegar sakborningur væri auðugur og þyrfti að komast undan réttlætinu. Ekki var hægt að kalla þáverandi verjanda Cosby sem vitni þar sem hann er dáinn.

Mál Constand gegn Cosby er hið eina sem sjónvarpsstjarnan hefur verið ákærð fyrir. Dómarinn sagði að það væri ólíklegt að áþekkt mál væri til þar sem grunaður maður, sem aldrei hlaut ákæru, hafi fengið loforð um að verða aldrei sóttur til saka. Hann hafnaði málflutningi varnarinnar og sagði að málið myndi halda áfram fyrir réttinum. Óvíst er hve langan tíma rekstur þess mun taka.


Tengdar fréttir

Cosby ákærður fyrir kynferðisbrot

Bill Cosby er sakaður um að hafa byrlað Andrea Constand ólyfjan og beitt hana kynferðislegu ofbeldi á heimili Cosby í Philadelphia árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×