Erlent

Konurnar 35 sem ásaka Bill Cosby stíga fram á áhrifamikilli forsíðu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einn stóll er skilinn eftir auður sem tákna á möguleg fórnarlömb sem gætu átt eftir að stíga fram.
Einn stóll er skilinn eftir auður sem tákna á möguleg fórnarlömb sem gætu átt eftir að stíga fram. New York Magazine
Á vefsíðu New York Magazine má finna áhrifaríka umfjöllun um þær konur sem ásakað hafa grínistann Bill Cosby um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Með samblöndu af myndböndum, viðtölum og ljósmyndum stíga alls 35 konur fram. 

Forsíða umfjölluninnar er sérstaklega áhrifarík en þar má sjá þær 35 konur sem segja sögu sína sitja ásamt auðum stól sem tákna á þau fórnarlömb sem mögulega eiga eftir að stíga fram. 

Brotin eiga að hafa átt sér stað á löngu tímabili eða allt frá 1965. Það var hinsvegar ekki fyrr en myndband af uppistandi grínistans Hannibal Buress ferðaðist vítt og breitt um netið fyrir um ári síðan að málið vakti áhuga fjölmiðla. Buress hafði fléttað atriði þar sem hann ásakar Bill Cosby um að vera nauðgari inn í uppistand sitt og í kjölfarið stigu rúmlega 40 konur fram með ásakanir á hendur Cosby.

Bill Cosby hefur alfarið neitað sök og hafa saksóknarar ekki lagt fram kæru á hendur Cosby. Ásakanirnar hafa þó gert það að verkum að NBC hefur hætt við sýningar á nýjum þætti frá Cosby auk þess sem að endursýningum á eldri verkum hans hefur verið hætt. 

Árið 2005 höfðaði Andrea Constand einkamál á hendur Bill Cosby vegna kynferðislegs ofbeldis. Constand og lögmaður hennar höfðu fengið 13 konur til þess að stíga fram með svipaðar ásakanir og Constand en samið var um málið áður en það var dómtekið og því báru konurnar 13 ekki vitni.

Undirsíða New York Magazine þar sem nálgast má umfjöllunina virðist ekki hafa þolað álagið og hefur síðan legið niðri frá því í morgun. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.