Erlent

Bræður handteknir í Belgíu vegna gruns um hryðjuverkaáform

Atli ísleifsson skrifar
Viðbúnaður lögreglu hefur verið mikill í Belgíu síðustu mánuði.
Viðbúnaður lögreglu hefur verið mikill í Belgíu síðustu mánuði. Vísir/AFP
Saksóknarar í Belgíu segja að tveir bræður hafi verið handteknir vegna gruns um að hafa ætlað sér að fremja hryðjuverk í landinu.

Bræðurnir, sem í skýrslum eru nefndir eru Nourredine H. og Hamza, voru handteknir eftir húsleit lögreglu í Mons-héraði og í borginni Liege. Í frétt BBC um málið segir að engin vopn eða sprengiefni hafi þó fundust við leitina.

Viðbúnaður hefur verið mikill í Belgíu allt frá því að 32 manns fórust í hryðjuverkaárás á alþjóðaflugvellinum og á neðanjarðarlestarstöð í Brussel í marsmánuði. Til viðbótar særðust margir í árásinni, en hryðjuverkasamtökin ISIS lýstu yfir ábyrgð á henni.

„Bráðabirgðaniðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mennirnir hafi haft áform uppi um að framkvæma árásir í Belgíu,“ segir í yfirlýsingu alríkissaksóknaraembættisins í Belgíu vegna handtöku bræðranna. Kemur þar einnig fram að engin tengsl hafi fundist milli bræðranna og árásanna í mars.

Dómari mun í dag úrskurða hvort bræðurnir varða hnepptir í gæsluvarðhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×