Erlent

Faldi sig í vélarrými bifreiðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá hvernig flóttamaðurinn hafði komið sér fyrir milli vélarinnar og farþegarýmisins.
Hér má sjá hvernig flóttamaðurinn hafði komið sér fyrir milli vélarinnar og farþegarýmisins. Mynd/Guardia Civil
Aðferðirnar sem flóttamenn reiða sig á til að komast inn í ríki Evrópusambandsins verða sífellt örvæntingafyllri, sem og hættulegri, eftir því sem straumur þeirra eykst með hverjum deginum.

Tveir landamæraverðir við El Tarajal, sem liggur við Marokkó og spænska héraðið Ceuta, brá mjög þegar þeir lyftu upp vélarhlíf á bifreið sem þeir hugðust rannsaka. Í vélarrýminu sáu þeir sér til mikillar undrunar fullvaxta karlmann sem hafði komið sér fyrir milli vélar bílsins og farþegarýmisins og lá þar í fósturstellingunni.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að annar flóttamaður hafði falið sig undir einu sæti bílsins og lá þar í hnipri undir fölskum botni. Hann er talinn vera 23 ára gamall.

Hér sést hvernig annar flóttamannanna hafði falið sig bakvið eitt sæta bílsins.Guardia Civil
Báðir mennirnir eru frá Gíneu í vesturhluta Afríku og höfðu þeir notið liðsinnis bílstjórans við að reyna að koma sér til Spánar yfir Gíbraltarsundið.

Bílstjórinn var handtekinn og flóttamennirnir tveir fluttir á sjúkrahús þar sem þeir sýndu merki ofþornunar og þreytu. Samkvæmt læknum sjúkrahúsins voru þeir taldir nær dauða en lífi þegar þeir komu þangað. 

Vart líður sá dagur sem ekki berast fregnir af raunum flóttamanna sem gera hvað þeir geta til að flýja bágbornar og stríðshrjáðar aðstæður í heimalöndum sínum. Þannig fundustu allt að fimmtíu flóttamenn látnir í vöruflutningabíl í austurhluta Austurríkis á fimmtudag og þúsundir hafa látið lífið við að reyna að komast siglandi yfir Miðjarðarhafið.

Nærri 340 þúsund flóttamenn komu til aðildarríkja Evrópusambandsins á fyrstu mánuðum ársins.

Þúsundir Íslendinga hafa nú lýst yfir áhuga sínum á að aðstoða flóttamenn með margvíslegum hætti.

Mynd/Guardia Civil

Tengdar fréttir

Gætum tekið við hundruðum

Fjölmargir Íslendingar kalla eftir því að Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum en áform ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík segir það vera stjórnvalda að ákveða töluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×