Erlent

Grikkir stóðu við stóru orðin og skiluðu tillögum sínum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ellilífeyrisþegi þurfti aðstoð starfsmanna við að komast í gegnum mannþröngina inn í banka í Aþenu í gær.
Ellilífeyrisþegi þurfti aðstoð starfsmanna við að komast í gegnum mannþröngina inn í banka í Aþenu í gær. Fréttablaðið/EPa
Gríska ríkisstjórnin skilaði tillögum sínum um breytingar á ríkisrekstri til Evrópusambandsins í gær eins og lofað var í fyrradag. Tillögurnar eru forsenda þess að viðræður um nýjan samning um neyðaraðstoð geti hafist en lokafrestur til að skila þeim var á miðnætti í nótt. Síðasti samningur um neyðaraðstoð rann út í síðasta mánuði. Ef af nýjum samningi verður yrði hann sá þriðji í röðinni.

Grískir fjölmiðlar greindu frá því í gær að franskir hagfræðingar hefðu hjálpað Grikkjum við gerð tillagnanna.

Tillögurnar sem Grikkir settu fram miða að því að hækka skatta, lækka bætur og skera niður í ríkisrekstri. Syriza, flokkur Alexis Tsipras sem fer með ríkisstjórn landsins, vann stórsigur í grísku þingkosningunum í janúar. Helsta stefnumál flokksins var að gríska ríkið ætti ekki að beita niðurskurði til að vinna sig út úr efnahagskreppu landsins heldur reyna að vaxa út úr henni án niðurskurðar. Miðað við tillögurnar er ljóst að það gengur ekki eftir.

Grikkir sendu formlega beiðni um neyðaraðstoð til Evrópska stöðugleikakerfisins, neyðarlánastofnunar Evrópusambandsins, á miðvikudag.

Fjármálaráðherrar ríkja evrusvæðisins funda um tillögurnar á laugardag og leiðtogar ríkja Evrópusambandsins fara yfir þær á sunnudag í Brussel.

„Raunsærri tillögu Grikkja verður að fylgja jafn raunsæ tillaga lánardrottnanna sem snýr að því að gera skuldir Grikkja bærilegar,“ sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

Umdeilt er hvort rétt væri að fella niður hluta skulda Grikkja til að gera hlutfall skulda af vergri landsframleiðslu sjálfbært. Hlutfallið er nú um 180 prósent en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) miðar við að 110 prósenta hlutfall teljist sjálfbært. Í gögnum frá sjóðnum sem láku segir að Grikkir muni ekki enn hafa náð því marki árið 2030 ef ekki verði af niðurfellingum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ítrekaði í gær að þær kæmu ekki til greina.

Ákveðið var í gær að bankar í Grikklandi yrðu lokaðir fram á mánudag og hver maður mætti einungis taka sextíu evrur út úr hraðbönkum á dag. Áformað hafði verið að opna banka aftur í gær.

„Ég kýs skjótan dauðdaga frekan en þennan hægfara dauða,“ segir Panagiotis Mellos, slátrari og kjötinnflytjandi í Aþenu, við Þorbjörn Þórðarson fréttamann sem er í Aþenu.

Verður að lækka skuldir Grikklands

„Ef evran og evrópskt efnahagslíf lendir í krísu, þá hefði það líka slæm áhrif á íslenskan efnahag,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem staddur er í Brussel, í samtali við Þorfinn Ómarsson, fréttamann Stöðvar 2. Sigmundur segir slæma stöðu Grikklands sýna hve mikilvægt það er að Íslendingar hafi stjórn á sínum eigin efnahagsmálum.

„Evrópusambandið og helstu kröfuhafar verða að færa niður hluta af skuldum Grikklands. Skuldastaðan er það slæm að hún er ekki sjálfbær. Það er nú þegar búið að skera meira niður í opinberri og félagslegri þjónustu en góðu hófi gegnir, það er ekki hægt að ganga lengra. Það verður að lækka skuldirnar til að Grikkland geti dafnað á ný.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×