Erlent

Segja ríki heims þurfa að stofna flóttamannasjóð

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kúrdar í norðanverðu Sýrlandi bíða við landamæri Grikklands í von um að komast yfir gryfjuna, sem skilur á milli.
Kúrdar í norðanverðu Sýrlandi bíða við landamæri Grikklands í von um að komast yfir gryfjuna, sem skilur á milli.
Meira en fjórar milljónir manna hafa hrakist frá Sýrlandi frá því vopnuð átök þar hófust vorið 2011. Langflestir þeirra hafast nú við í fimm nágrannaríkjum Sýrlands, sem eru að sligast undan vandanum.

„Flóttamannavandinn er eitt helsta verkefni 21. aldarinnar, en viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa verið til skammar,“ segir Shalil Shetty, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Amnesty International, í tilefni af útgáfu nýrrar skýrslu um ástandið. „Umheimurinn getur ekki lengur setið hjá og fylgst með löndum á borð við Líbanon og Tyrkland taka á sig þetta stórar byrðar.“

Samtökin segja nauðsynlegt að stokka rækilega upp í þeim leiðum, sem alþjóðasamfélagið svonefnda hefur farið til þess að bregðast við vandanum. Móta þurfi nýja stefnu og stunda önnur vinnubrögð en hingað til.

Meðal annars leggja samtökin til að stofnaður verði alþjóðlegur flóttamannasjóður, sem gæti veitt myndarlegan stuðning til þeirra ríkja sem taka við mörgum flóttamönnum. Þá þurfi að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu þar sem einkum verði horft til ábyrgðar ríkja heims og leiða til að taka í sameiningu á vandanum.

Samtökin segja að leiðtogar helstu ríkja heims hafi í raun dæmt milljónir flóttamanna til þess að búa við óbærilegar aðstæður og þúsundir manna til dauða með því að útvega ekki nauðsynlega mannúðarvernd.

Tilboð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að taka við 20 þúsund flóttamönnum til viðbótar, sem fái hæli í löndum sambandsins, er engan veginn nóg til þess að slá á vandann.

Engar líkur virðast á því að þær milljónir flóttamanna, sem hrakist hafa frá Sýrlandi, geti snúið þangað aftur á næstu misserum. Samtökin segja að alþjóðasamfélaginu beri skylda til að sinna þessum flóttamönnum. Alltof fáum þeirra hafi boðist hæli og mikið vanti upp á að óskum mannúðarsamtaka um fjármögnun aðgerða hafi verið sinnt.

Að mati Amnesty International er þörfin slík, að 300 þúsund flóttamenn þurfi að fá hæli í öðrum löndum á ári hverju næstu fjögur árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×