Innlent

Býst við fleiri heimilisofbeldisákærum

viktoría hermannsdóttir skrifar
104 heimilisofbeldismál komu á borð lögreglu á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs.
104 heimilisofbeldismál komu á borð lögreglu á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. NORDICPHOTOS/GETTY
Þrátt fyrir að tilkynningum um heimilisofbeldismál hafi fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu fyrstu mánuði ársins þá er ekki enn ljóst hvort ákærum í slíkum málum fjölgi.

Í síðustu viku sagði Fréttablaðið frá því að á tímabilinu 12. janúar til 11. mars á þessu ári hefðu komið 104 mál tengd heimilisofbeldi á borð lögreglu og er fjölgunin rakin til átaks gegn heimilisofbeldi sem sett var í gang í janúar.

Að sögn Öldu Hrannar Jóhannesdóttur aðstoðarlögreglustjóra er ekki ljóst að svo stöddu hvort fjölgun tilkynninga um heimilsofbeldi skili sér í fleiri ákærum í þessum málaflokki.

„Það tekur nokkurn tíma að sjá ákæruhlutfallið, ég myndi halda að lágmarki 6 mánuði en allt að einu ári,“ segir Alda Hrönn.

Það sé þó líklegt að ákærum muni fjölga, þar spili inn í breytt verklag lögreglu sem kemur inn í málin af auknum krafti í upphafi þeirra. Það hafi líka sýnt sig á Suðurnesjum eftir að sett var í gang þar átak gegn heimilisofbeldi að það hafi skilað sér í fjölgun sakfellinga hjá Héraðsdómi í heimilisofbeldismálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×