Erlent

Fimmtán manns bjargað á lífi

guðsteinn bjarnason skrifar
Björgunarfólk hraðaði sér að vélinni, sem stóð upp úr ánni að litlum hluta.
Björgunarfólk hraðaði sér að vélinni, sem stóð upp úr ánni að litlum hluta. fréttablaðið/EPA
Síðdegis í gær hafði tekist að bjarga fimmtán manns á lífi úr farþegaflugvél sem fórst í Taívan í gær. Óttast var að 43 hefðu farist þegar vélin hrapaði í höfuðborginni Taípei.

Ekki er vitað hvað olli slysinu, en vélin var á vegum taívanska flugfélagsins TransAsia. Í taívönsku útvarpi var aftur og aftur spiluð upptaka af síðustu samskiptum flugmanna við flugturn, þar sem flugmaður hrópaði þrisvar neyðarorðið „Mayday“ og „bilun í hreyfli“. Upptakan gaf þó enga vísbendingu um það hvað komið hefði fyrir.

„Það er of snemmt núna að velta því fyrir sér hvort það hafi verið vélin eða áhöfnin,“ sagði Greg Waldron, ritstjóri flugtímaritsins Flightglobal í Singapúr.

Nokkrir vegfarendur tóku myndbönd af slysinu, sem sýnd voru í fjölmiðlum víða um heim í gær. Þar sést vélin koma fljúgandi í áttina að brú, snúast svo nokkuð skyndilega á hlið, reka vænginn í bifreið og brúarhandrið og hrapa síðan í Keelung-ána.

Um borð í vélinni voru 58 manns. Flestir farþeganna voru frá Kína. Vélin var af gerðinni ATR 72, smíðuð í Frakklandi og á Ítalíu. Síðasta sumar fórust tugir manna þegar önnur vél sömu gerðar, frá sama taívanska flugfélaginu, hrapaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×