Innlent

Leigubílstjórar sem aka fötluðum óánægðir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Mikið hefur verið deilt á Ferðaþjónustu fatlaðra upp á síðkastið vegna brotalama í þjónustunni.
Mikið hefur verið deilt á Ferðaþjónustu fatlaðra upp á síðkastið vegna brotalama í þjónustunni. Fréttablaðið/Stefán
Níu leigubílstjórar sem ekið hafa fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra á vegum Strætó bs. tilkynntu í gær að þeir myndu ekki fara fleiri ferðir þann daginn.

Enginn bílstjóranna vildi koma fram undir nafni, en einn úr hópi þeirra sagði í samtali við Fréttablaðið að gríðarleg óánægja væri meðal þeirra í garð Strætó bs. Hann bætti við að ekki hefði verið staðið við gerða samninga. Þá hefði Strætó bs. dregið 25 til 30 prósent af launum hans með því að draga frá tíma á milli ferða.

Bílstjórar fengju því ekki greitt á milli ferða, en væri þó skylt að vera til taks með skömmum fyrirvara ef þeir væru kallaðir í verkefni á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra.

Framkvæmdastjóri Strætó, Jóhannes Svavar Rúnarsson, kveðst vita af óánægju bílstjóra en segist ekki vita hvers vegna þeir hafi tekið þá ákvörðun að aka ekki fleiri ferðir.

Hann kveðst þó hafa vitað af umkvörtunum hóps bílstjóra vegna greiðslna fyrir síðasta mánuð, en segir um leið að Strætó hafi staðið við alla samninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×