Nú þegar sjö vikur eru til kosninga hefur Ted Cruz tíu prósentustiga forskot á mótframbjóðanda sinn auðkýfinginn Donald Trump í Iowafylki.
Þeir sækjast báðir eftir útnefningu repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári.
Kosningarnar í Iowa eru oft sagðar gefa tóninn fyrir kosningar annarra fylkja en íbúar Iowa eru þeir fyrstu til að ganga að kjörborðinu.
Í könnun Des Moines Register og Bloomberg kemur fram að Cruz njóti nú 31 prósent fylgis í Iowa en Trump mælist með 21 prósent stuðning.
Niðurstöðurnar eru til marks um gífurlega sveiflu í fylgi Cruz sem lengi framanaf var að mælast með um 10 prósent stuðning. Kosningabarátta hans í Iowa hefur snúist í meginatriðum um að sannfæra leiðtoga hinna fjölmörgu kristilegu safnaða í fylkinu. Það hefur borið árangur og er opinber stuðningur Bob Vander Plaats við Cruz talið stærsta ummerki þessi. Plaats stóð dyggilega við bakið á þeim frambjóðendum sem urðu hlutskarpastir í tveimur síðustu forkosningum í Iowa.
Aðrir frambjóðendur repúblikana eru með töluvert minna fylgi í ríkinu. Taugaskurðlæknirinn Ben Carson er í þriðja sæti með 13 prósent, Marco Rubio með 10 prósent fylgi og situr sem fastast í fjórða sæti. Jeb Bush bætir við sig einu prósenti og mælist nú með 6 prósent.Rand Paul, Mike Huckabee og Chris Christie eru jöfn með 3.
Næstu kappræður repúblikana fara fram í Las Vegas á þriðjudag.

