Minnst nítján eru látnir eftir sprengingu á fjölmennum markaði í norðausturhluta borgarinnar Maiduguri í Nígeríu. Óstaðfestar fréttir AFP herma að barnung stúlka hafi borið sprengjuna sem sprakk í hádeginu í dag að íslenskum tíma. Enginn hefur lýst sprengjuárásinni á hendur sér.
Guardian hefur eftir talsmanni lögreglunnar í Borno, héraðinu þar sem Maiduguri er, að átján til viðbótar væru slasaðir. Óttast er að tala látinna muni hækka. Starfsmaður Rauða krossins sagði í samtali við AFP að margir hafi særst lífshættulega.
Sjá einnig: Óttast að tvö þúsund hafi látist í árásum Boko Haram í vikunni
Árásir sem þessar eru algengar í Maiduguri, sem er höfuðborg héraðsins, vegna þess hve nálæg hún er yfirráðasvæði hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Tvær sjálfsmorðssprengjuárásir voru gerðar á sama markaði á síðasta ári. Þúsundir hafa flúið frá borginni Baga síðustu daga eftir mannskæðar árásir hryðjuverkasamtakanna en margir hafa leitað til Maiduguri.
Óttast er að allt að tvö þúsund manns hafi látist í árásum hryðjuverkasamtakanna á Baga, sem er í norð-austur Nígeríu, fyrir viku síðan. Árásirnar eru einar þær mannskæðustu frá því að liðsmenn Boko Haram hófu árásir sínar í landinu árið 2009. Markið samtakanna er að koma á íslömsku ríki.
Tveir aðrir létust þegar bíll sprakk í Potiskum, sem einnig er í norðausturhluta landsins. Boko Haram framdi hryðjuverk í Potiskum í nóvember síðastliðnum, þegar sjálfsmorðssprengjuárás var gerð í skóla í borginni með þeim afleyðingum að 58 létust. Óljóst er hver stendur að baki bílsprengjunni.
Nítján látnir í sprengjuárás á markað í Nígeríu

Tengdar fréttir

Óttast að tvö þúsund hafi látist í árásum Boko Haram í vikunni
Yfirvöld í Borno-héraði í Nígeríu óttast að um tvö þúsund hafi látist í árásum Boko Haram á bæinn Baga í norð-austur Nígeríu.