Enski boltinn

Gibbs: Alexis Sanchez kunni heldur ekki ensku þegar hann kom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud, Alexis Sanchez, Danny Welbeck og Gabriel Paulista fagna öðru af mörkum liðsins um síðustu helgi.
Olivier Giroud, Alexis Sanchez, Danny Welbeck og Gabriel Paulista fagna öðru af mörkum liðsins um síðustu helgi. Vísir/Getty
Kieran Gibbs, bakvörður Arsenal, hefur fulla trú á sínu liði til að gera góða hluti á öllum þremur vígstöðum en Arsenal er enn með í enska bikarnum og framundan eru sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Við þurfum á stórum leikmannahópi að halda og við erum með hóp til að keppa á þessum þremur vígstöðum. Við erum líka alveg jafn hungraðir í að verja enska bikarinn," sagði Kieran Gibbs í viðtali við BBC og hann er ánægður með nýja manninn Gabriel Paulista.

Gabriel Paulista fékk á sig gagnrýni að kunna ekki stakt orð í ensku en spilaði sinn fyrsta leik í 2-0 sigri á Middlesbrough í enska bikarnum um helgina og stóð sig ágætlega.

„Hann lítur út fyrir að hafa verið að spila á þessu stigi í langan tíma," sagði Kieran Gibbs um Brasilíumanninn sem Arsenal keypti frá Villarreal í janúar.

„Hann var fljótur að komast inn í hlutina og ræður vel við líkamlega þátt leiksins sem er það sem við viljum sjá hjá miðverði," sagði Gibbs.

„Gabriel talar enga ensku eins og er en Alexis Sanchez kunni heldur ekki ensku þegar hann kom á sínum tíma. Það mun ekki taka hann langan tíma að læra þetta og við erum þegar byrjaðir að kenna honum nokkur orðatiltæki," sagði Gibbs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×