Enski boltinn

Wenger: Giroud allt annar leikmaður í dag en þegar hann kom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud og Arsene Wenger.
Olivier Giroud og Arsene Wenger. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hrósaði franska framherjanum Olivier Giroud en Giroud skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 bikarsigri á Middlesbrough í gær.

Giroud fótbrotnaði í ágúst og missti af þeim sökum af þremur mánuðum af tímabilinu en með tvennu hans í gær þá er franski framherjinn kominn með tíu mörk á tímabilinu.

Wenger ætlar að veðja áfram á Frakkann þrátt fyrir að hann hafi fengið til sín framherjana Danny Welbeck og Alexis Sanchez.

„Ég tel að Giroud sé allt annar leikmaður í dag en hann var þegar hann kom hingað fyrst. Hann skilur nú betur hvað það þýðir að vera að spila í toppfótbolta. Hann er vinnusamur og einbeittur á æfingum og hefur bætt hreyfanleika sinn mjög mikið," sagði Arsene Wenger við Sky Sport.

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég keypti Welbeck var sú að hann getur bæði spilað sem fremsti maður sem og út á kanti. Hann er að standa sig einstaklega vel og gefur mikið til liðsins. Hann getur spilað sem fremsti maður eins og hann gerði í langan tíma en okkur hreinræktaði framherji er Giroud," sagði Wenger.

„Allir sóknarmenn okkar geta spilað mismunandi stöður. Giroud er sá eini af þeim sem getur bara spilað fremst á vellinum. Þegar hann spilar þá verða því hinir að spila út á kanti," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×