Enski boltinn

Van Gaal um Rooney: Vinalegur og kvartar aldrei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney horfir til Louis van Gaal á æfingu Manchester United.
Wayne Rooney horfir til Louis van Gaal á æfingu Manchester United. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að félagið verði að kaupa skapandi miðjumann í sumar og það sé því alls ekki ætlun hans að gera Wayne Rooney að miðjumanni.

Hollenski knattspyrnustjórinn hefur verið með margskonar tilraunir í gangi inn á miðjunni hjá United-liðinu og meðal annars hefur hann látið Wayne Rooney spila þar upp á síðkastið.

Van Gaal segir að Wayne Rooney sér ánægður með að spila á miðjunni en að hann sé bara að spila þar af því að það sé enginn annar í boði.

Vísir/Getty
„Það ætti að vera forgangsmál hjá okkur að kaupa skapandi miðjumann. Ég er að leita að jafnvægi inn á miðjunni," sagði Louis van Gaal við blaðmann BBC fyrir bikarleikinn á móti Preston sem fer fram í kvöld.

„Í síðustu leikjum hef ég notað þá Adnan Januzaj og Angel di Maria inn á miðjunni en það þarf ákveðna týpu til að spila þessa stöðu," sagði Van Gaal.

„Radamel Falcao og Robin van Persie eru einnig skapandi leikmenn og þarna er ég með fjóra slíka menn en er samt ennþá að leita að rétta jafnvæginu í liðinu," sagði Van Gaal.

„Wayne er að spila inn á miðjunni af því að það er enginn annar. Hann er sáttur með að spila þarna því annars ætti hann að láta mig vita. Hann hefur aldrei talað um það. Hann er alltaf vinalegur við mig og vil standa sig," sagði Van Gaal.

„Auðvitað fer hann samt að hugsa sig um þegar allur blaðamannaheimurinn er að skrifa um að hann ætti að vera spila frammi. Hann er nú bara mannlegur," sagði Van Gaal.

Bikarleikur Preston og Manchester United hefst klukkan 19.45 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×