Fótbolti

16 FIFA-menn til viðbótar kærðir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Forseti brasilíska knattspyrnusambandsins er einn þeirra sem hefur verið kærður fyrir mútuþægni og spillingu.
Forseti brasilíska knattspyrnusambandsins er einn þeirra sem hefur verið kærður fyrir mútuþægni og spillingu. Vísir/Getty
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákært sextán hátt setta embættismenn innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, vegna spillingar. Þetta var tilkynnt í dag, fáeinum klukkustundum eftir að tveir varaforsetar FIFA voru handteknir í Zürich í morgun.

Meðal þeirra sem eru kærðir eru Ricardo Teixeira, fyrrum forseti brasilíska knattspyrnusambandsins, og Marco Polo del Negro, núverandi forseti þess sama sambands.

Sjá einnig: Bandaríkjamenn halda áfram að handtaka FIFA-menn

Meðal annarra sem eru ákærðir eru núverandi og fyrrverandi forsetar og stjórnarmenn í hinum ýmsu knattspyrnusamböndum í mið- og Suður-Ameríku sem og Alfredo Hawit, forseti Concacaf - knattspyrnusambands álfunnar. Einn þeirra á meira að segja sæti í svokallaðri „Fair Play“ nefnd hjá FIFA.

Alls hafa nú 41 einstaklingur verið ákærður fyrir þátt sinn í spillingu FIFA en rannsókn bandarískra og svissneskra yfirvalda á fjármálamisferli FIFA er einhver sú víðtækasta í sögunni.

„Sá trúnaðarbrestur sem hefur átt sér stað í þessu máli er engu líkur. Spillingunni virðast engin mörk sett,“ sagði Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.

„Og skilaboð okkar til þeirra sem leynast enn í skugganum og vonast eftir því að sleppa undan rannsókn okkar eru skýr. Þið munið ekki sleppa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×