Enski boltinn

Sakar vinsælan sjónvarpsþátt um að hafa næstum látið reka sig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nigel Pearson tók James McArthur hálstaki.
Nigel Pearson tók James McArthur hálstaki. vísir/getty
Nigel Pearson, knattspyrnustjóri Leicester, vandaði Gary Lineker, fyrrverandi landsliðsframherja Englands og þáttastjórnanda Match of the Day á BBC, ekki kveðjurnar á blaðamannafundi í gær.

Pearson sakaði Lineker og sérfræðinga hins vinsæla þáttar, þar sem farið er yfir leiki laugardagsins í enska boltanum, um að gera úlfalda úr mýflugu úr því þegar Pearson tók James McArthur, leikmann Crystal Palace, hálstaki.

Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool, og Jermaine Jenas, sem spilaði með Newcastle og Tottenham m.a. á sínum ferli, voru sérfræðingar þáttarins að þessu sinni.

Talið var að Pearson hefði verið rekinn eftir atvikið og var greint frá því í öllum vefritum og sjónvarpsfréttatímum þar sem Leicester gaf loks út yfirlýsingu um annað.

„Það hjálpar manni ekki þegar viskubrunnarnir þrír í Match of the Day gera úlfalda úr mýflugu. Það var gerðist ekkert á laugardaginn. Það er í lagi með strákinn og þetta var allt gert í gamni,“ sagði Pearson um hálstakið.

Kostaði þetta Pearson næstum starfið?


Lineker, sem er goðsögn hjá Leicester og spilaði yfir 200 leiki fyrir félagið, var á dögunum sakaður um að svíkja undan skatti af einu götublaðinu í Bretlandi en ekkert hefur verið sannað. Pearson nýtti tækifærið og blandaði því í reiðilestur sinn.

„Menn eru að leita að fréttum sem eru ekki til staðar. Mér fannst Match of the Day-liðið reyna að eyðileggja fyrir mér. Mér er alveg sama hvað þeim finnst um mig. Ég borga skattana mína,“ sagði Pearson.

Lineker svaraði Person á Twitter þar sem hann sagði: „Nigel Pearson sakar MOTD um að gera úlfalda úr mýflugu. Við þurfum að passa okkur í framtíðinni. Þessi maður getur séð um sjálfan sig.“

Talið er að einn meðlimur Srivaddhanaprabha-fjölskyldunnar, sem á Leicester, hafi rekið Pearson á laugardaginn og þannig hafi fréttirnar farið af stað. Annar fjölskyldumeðlimur hafi svo snúið ákvörðuninni.

Lineker bætti því kaldhæðinn við á Twitter: „Ef ég væri viskubrunnur myndi ég segja ykkur að hann var rekinn af einum fjölskyldumeðlim en endurráðinn af öðrum. En ég er enginn viskubrunnur.“

Nigel Pearson verður í eldlínunni í kvöld þegar Leicester mætir Arsenal klukkan 19.45 í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×