Íslenski boltinn

Rasmus Christiansen genginn til liðs við Val

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rasmus sáttur stuttu eftir undirskrift í dag.
Rasmus sáttur stuttu eftir undirskrift í dag. Mynd/Valur
Danski miðvörðurinn Rasmus Steenberg Christiansen skrifaði í dag undir tveggja ára samning hjá Val en hann gengur til liðs við bikarmeistarana eftir aðeins eitt ár í herbúðum KR.

Rasmus sem lék í þrjú ár með ÍBV gekk til liðs við KR síðasta vor eftir tvö ár í herbúðum Ull/Kisa í Noregi. Rasmus lék 17 leiki í öllum keppnum með KR á síðasta tímabili en hann fékk heimild til að ræða við önnur félög eftir að Indriði Sigurðsson sneri aftur til KR.

Rasmus tekur því sæti landa síns, Thomas Guldborg Christensen, í hjarta varnarinnar hjá Val en hann var nokkuð brattur eftir undirskrift í samtali við heimasíðu Vals.

„Valur hefur verið á uppleið síðustu ár, leikstíllinn hefur breyst og mér líkar vel við stefnuna sem félagið er að taka. Ég vonast til þess að félagið haldi áfram á uppleið og að ég geti tekið þátt í því. Markmiðið hjá mér er að berjast við toppinn og ég held að liðið sé nægilega gott til þess,“ sagði Rasmus en viðtalið má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×