Enski boltinn

Monk: Næst gef ég Gylfa köku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Garry Monk.
Gylfi Þór Sigurðsson og Garry Monk. Vísir/Samsett mynd/Getty
Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea, tjáði sig í fyrsta sinn í gær um ummæli Gylfa Þórs Sigurðssonar sem vöktu athygli í upphafi vikunnar.

Gylfi sagði í viðtali við Fótbolta.net að Monk hafi ekki sent sér eða öðrum leikmönnum sem tryggðu sig inn á EM 2016 með landsliðum sínum SMS-skeyti með hamingjuóskum.

Sjá einnig: Swansea tók útskýringar Gylfa gildar

„Það voru Gylfa mikil vonbrigði hvernig ummæli hans voru tekin úr samhengi. Því getur maður ekki stjórnað,“ sagði Monk í gær en ummæli hans birtust á Wales Online.

„Við höfum verið afar opnir gagnvart fjölmiðlum og maður veltir því fyrir sér hvort að það þurfi að breytast. En við ætlum ekki að breyta því.“

Eftir að viðtal Gylfa var tekið upp í enskum fjölmiðlum sendi landsliðsmaðurinn frá sér yfirlýsingu þar sem að hann útskýrði ummæli sín. „Það skiptir líka engu máli hvort ég hafi fengið SMS frá Gary Monk eða ekki með hamingjuóskum, því hann óskaði okkur auðvitað til hamingju þegar við mættum til æfinga,“ sagði Gylfi.

„Ég verð að senda þeim köku næst,“ sagði Monk og brosti. „Ég er stoltur af afrekum þeirra. Félagið er stolt af þeim. Ég óskaði þeim öllum til hamingju. Þetta er ekkert vandamál.“

Monk hefur þótt valtur í sessi eftir að Swansea hefur gefið eftir á síðustu vikum. Liðið hefur unnið aðeins einn leik af síðustu níu í öllum keppnum. Monk segist ekki hafa áhyggjur og að samband hans við stjórnendur félagsins er gott.

„Sumt af því sem hefur verið skrifað í fjölmiðlum hefur valdið mér vonbrigðum. Stór hluti þess er óábyrgt og ég held að fólk hafi reynt að taka það sem ég hef sagt úr samhengi. Það býr eitthvað annað því að baki.“

„En þetta fólk hefur ekkert með Swansea að gera og ég get engu stjórnað um það sem er sagt. Ég þarf að einbeita mér að því sem er sagt innan veggja félagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×