Erlent

Gríðarleg sorg í Rússlandi í kjölfar brotlendingar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rússnesk kona syrgir hina föllnu.
Rússnesk kona syrgir hina föllnu. Nordicphotos/AFP
Hafist var handa við að flytja lík þeirra 224 sem fórust þegar farþegaflugvél rússneska flugfélagsins Kogalymavia hrapaði á laugardaginn á Sínaískaga í Egyptalandi til Sankti Pétursborgar í Rússlandi í gær.

Mikil sorg ríkir í Rússlandi í kjölfar brotlendingarinnar og lýsti Vladimir Pútín forseti yfir þjóðarsorg í gær . Þá vottaði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Rússum samúð sína í gær.

Sérfræðingur flugmálastofnunar Rússlands sagði í gær að vélin hafi liðast í sundur er hún var enn á flugi. Þó sagði hann of snemmt til að segja nákvæmlega til um hvað gerst hafði.

Vélin var á leið sinni til Sankti Pétursborgar frá Sínaískaga og flykktust syrgjendur á Pulkovoflugvöll í gær til að votta fórnarlömbum virðingu sína, en þar átti vélin að lenda.

Hersveitir Íslamska ríkisins voru fljótar að lýsa yfir ábyrgð sinni en flugyfirvöld hafa hafnað því og segja ekkert benda til hryðjuverkaárásar.

Óljóst er enn hvað grandaði vélinni en hún hvarf skyndilega af ratsjám eftir að hafa verið á lofti í 23 mínutur í blíðviðri. Yfirmaður flugmálastofnunnar Egypta, Adele Al-Mahjoob, sagði tæknibilum þó líklegustu orsökina.

Forseti Egypta, Abdel Fattah el-Sisi, bað fólk um að hrapa hins vegar ekki strax að ályktunum. „Þetta er flókið mál sem krefst ítarlegrar rannsóknar sem gæti tekið marka mánuði,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×