Erlent

Sádi-arabískur prins ákærður fyrir fíkniefnasmygl

Bjarki Ármannsson skrifar
Captagon-pillur sem haldlagðar voru í Beirút árið 2007.
Captagon-pillur sem haldlagðar voru í Beirút árið 2007. Vísir/EPA
Sádi-arabískur prins hefur verið ákærður fyrir fíkniefnasmygl í Líbanon. Prinsinn hefur ekki verið nafngreindur en hann er einn af tíu manns sem eru ákærðir eftir að tollverðir á flugvellinum í Beirút fundu tvö tonn af svokölluðum Captagon-pillum í síðustu viku. Um er að ræða stærsta fíkniefnafund í sögu landsins.

Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá var prinsinn handtekinn ásamt fjórum öðrum ríkisborgurum Sádi-Arabíu. Hinir fimm ákærðu eru ekki í haldi lögreglu.

Captagon-pillur innihalda oftast bæði amfetamín og koffín. Þær eru ólöglegar nær alls staðar í heiminum en njóta þó talsverðra vinsælda í Mið-Austurlöndum. Hermenn í Sýrlandi notast meðal annars við pillurnar sem orkugjafa í bardögum.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því árið 2013 að rúmlega helmingur alls þess amfetamíns sem haldlagt er í heiminum er haldlagt í Mið-Austurlöndum og stærstur hluti þess amfetamíns er í formi Captagon-pilla.

Tonnin tvö sem leiddu til handtöku prinsins fundust í kössum sem verið var að flytja um borð í einkaþotu á flugvellinum í Beirút.​



Fleiri fréttir

Sjá meira


×