Erlent

Rússar fordæma skopmyndir í Charlie Hebdo

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Myndirnar sem um ræðir.
Myndirnar sem um ræðir.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa fordæmt skopmyndir sem birtust í nýjasta tímariti Charlie Hebdo af flugslysinu á Sinæ skaga um síðustu helgi. Talsmaður Vladimírs Pútín Rússlandsforseta segir myndirnar óásættanlegar og hafi ekkert með tjáningarfrelsi að gera. Yfirvöld ætli þó ekki að leggja fram formlega kvörtun.

Um tvær skopmyndir er að ræða. Á annarri þeirra má sjá brak og líkamsleifar falla á vígamenn Íslamska ríkisins undir yfirskriftinni: „IS: Rússar auka loftárásir sínar“ – og er þar með vísað í loftárásirnar Rússa í Sýrlandi. Á hinni myndinni má sjá hauskúpu með sólgleraugu með brak flugvélarinnar í bakgrunni. Titill þeirrar myndar er: „Hættur rússneskra lággjaldaflugfélaga“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar fordæma skopritið því síðast í mars birtist skopmynd af stríðinu í Úkraínu. Undir henni stóð „Hvernig væri ef við gerðum eitthvað við einhverja skopmyndateiknara?“. Myndina má sjá hér fyrir neðan.

Franskir sérfræðingar greindu frá því í dag að talið sé að öflug sprengja hafi orðið til þess að rússneska vélin hrapaði, með þeim afleiðingum að 224 fórust. Þeir segja ekkert benda til þess að vélarbilun hafi orðið, en flugritar sýna að allur tækjabúnaður var í góðu lagi skömmu áður en vélin fórst.

ISIS samtökin höfðu áður lýst ábyrgð á verknaðnum og í gær greindi bandaríska fréttastofan NBC frá því að bandaríska leyniþjónustan hafi hlerað samtal milli ISIS liða í Sýrlandi og Egyptalandi þar sem fram kemur hvernig vélinni var grandað.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti stöðvaði í gær allt áætlunarflug milli Rússlands og Egyptalands vegna hættu á hryðjuverkaárásum, en fimmtíu þúsund rússneskir ferðamenn eru nú í landinu. Ákvörðun Pútíns er mikið áfall fyrir efnahag Egypta sem byggir að miklu leyti á ferðaþjónustu. Um þrjátíu prósent allra ferðamanna í landinu koma frá Rússlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×