Erlent

Bandaríkin senda hermenn til Sýrlands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sérsveitarmaður bandaríska hersins í Írak.
Sérsveitarmaður bandaríska hersins í Írak. Vísir/Getty
Bandaríkin munu í fyrsta skipti senda hermenn með fasta viðveru til Sýrlands síðan átökin hófust fyrir fjórum árum. Stefnt er að því að um 50 sérsveitarmenn haldi til n-Sýrlands á yfirráðasvæði Kúrda til þess að aðstoða og leiðbeina uppreisnarhópum á svæðinu. 

Sérsveitin mun halda til Sýrlands á næstu dögum en þó er ekki búist við því að herlið Bandaríkjanna verði á víglínunum en það mun þó að öllum líkindum taka þátt í aðgerðum uppreisnarmanna.

Bandaríski herinn mun einnig auka viðveru sína í Tyrklandi með því að senda fleiri A-10 og F-15 herþotur til bækistöðva í Tyrklandi. Einnig er stefnt að því að senda annan sérsveitarhóp til Írak sem einbeita á sér að baráttunni gegn ISIS. Barack Obama hefur einnig gefið grænt ljós á að Jórdanía og Líbanon hljóti aukna hernaðaraðstoð frá bandaríska hernum.

Bandarískar herþotur hafa haldið uppi loftárásum á Sýrland frá 2014 og stutt við bakið á uppreisnarhópum með vopnasendingum og fjárstuðningi en hafa ekki áður sent herlið til Sýrlands. Obama hefur þangað til nú staðið í vegi fyrir því að Bandaríkin sendi hermenn til Sýrlands en hefur þó jafnt og þétt aukið hernaðaraðgerðir bandaríska hersins í Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Yfirráðasvæði ISIS hefur stækkað

Meðan sýrlenski herinn, með stuðningi Rússa og Íran, berst við uppreisnarmenn, hafa ISIS tekið fjölda þorpa í Sýrlandi.

Bandaríkin gefa í gegn ISIS

Þeir sem til þekkja segja að með þessu sé Bandaríkjaher að viðurkenna að loftárásir síðustu mánaða hafi litlu skilað.

Stórveldin funda vegna Sýrlands

Í fyrsta sinn sem fulltrúar þeirra ríkja sem styðja hópana sem takast á í Sýrlandi hittast til að ræða málin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×