Innlent

Ólöf búin að funda með öllum umsækjendunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinstri: Ólafur Þór Hauksson, Bryndís Kristjánsdóttir, Björn Þorvaldsson, Hulda Elsa Björgvinsdóttir og Jón H.B. Snorrason.
Frá vinstri: Ólafur Þór Hauksson, Bryndís Kristjánsdóttir, Björn Þorvaldsson, Hulda Elsa Björgvinsdóttir og Jón H.B. Snorrason. Vísir
Nýr héraðssaksóknari verður að öllum líkindum skipaður eftir helgi. Innanríkisráðherra hefur fundað með umsækjendunum fimm og hitti þann síðasta á mánudaginn. Þórdís Kolbrún Reykfjörð, aðstoðarmaður ráðherra, segir skipunina á lokastigum en á frekar von á að skipað verði í stöðurnar eftir helgi en á morgun.

Upphaflega átti að skipa í embætti héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara þann 1. september en tímafrestur var lengdur til 1. október. Þremur vikum síðar bíða bæði umsækjendur enn eftir svörum en til stóð að ráðherra tæki þann síðasta í viðtal síðastliðinn föstudag. Það frestaðist til mánudags samkvæmt heimildum Vísis.

Annasamar vikur

Undanfarnar vikur hafa verið annasamar hjá innanríkisráðherra meðal annars vegna málefna flóttamanna og hælisleitenda. Þá má reikna með því að töluverður tími hafi farið í undirbúning fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem fram fer um helgina. Þar sækist hún eftir kjöri sem varaformaður.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra fundaði með síðasta umsækjandanum á mánudaginn.visir/ernir
Héraðssaksóknari mun taka til starfa þann 1. janúar 2016 en embættið kemur í stað embættis sérstaks saksóknara sem verður lagt niður. Þriggja manna hæfisnefnd var skipuð til að meta hæfi umsækjenda og hefur skilað áliti sínu til ráðherra sem er þó ekki bundinn af því. 

Í nefndinni sitja Arnfríður Einarsdóttir, héraðsdómslögmaður og formaður nefndarinnar, Elín Blöndal lögfræðingur Háskóla Íslands og Þórhallur Vilhjálmsson, lögfræðingur og forstöðumaður lagaskrifstofu Alþingis.

Fimm sóttu um hvort embætti

Alls sóttu fimm manns um embætti héraðssaksóknara. Þeirra á meðal eru Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari og Bryndís Björk Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri. Aðrir umsækjendur eru Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara og Jón H. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri.

Umsækjendur um embætti varahéraðssaksóknara voru þau Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, Björn Þorvaldsson, Daði Kristjánsson, saksóknari hjá ríkissaksóknara, Hulda Elsa Björgvinsdóttir og Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×