Erlent

Töldu Talibana stjórna sjúkrahúsi Lækna án landamæra

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvél Bandaríkjanna skaut á sjúkrahúsið í allt að klukkustund.
Flugvél Bandaríkjanna skaut á sjúkrahúsið í allt að klukkustund. Vísir/EPA
Bandarískir hermenn ræddu sjúkrahús Lækna án landamæra (MSF) í Kunduz í Afganistan, degi áður en þeir fóru fram á að loftárás yrði gerð á sjúkrahúsið. Á fundi þeirra kom fram að starfsfólk samtakanna væru í sjúkrahúsinu. Hins vegar töldu þeir að Talibanar stjórnuðu því.

Bandaríkin gerðu bandamönnum sínum kunnugt um staðsetningu sjúkrahússins og meðal markmiða dagsins var að ná stjórn á sjúkrahúsinu. AP fréttaveitan hefur þetta eftir heimildum og segir þetta vekja upp spurningar hvort að um glæp gegn alþjóðalögum hafi verið að ræða.

30 manns létu lífið í loftárásinni sem var gerð þann 3. október. Bæði sjúklingar og starfsmenn MSF létu lífið. Flugvél Bandaríkjanna skaut á sjúkrahúsið í allt að klukkustund.

Talsmaður MSF segir að embættismenn frá Bandaríkjunum hafi spurt samtökin hvort að Talibanar stjórnuðu sjúkrahúsinu nokkrum dögum fyrir árásina. Tim Shenk segir að þeim hafi verið svarað á þann veg að svo væri ekki.

Talsmaður Pentagon segir hins vegar að ótímabært sé að draga ályktanir áður en þeim þremur rannsóknum sem hafi verið settar af stað ljúki.

Áður hefur því verið haldið fram að vígamenn hafi skotið að hermönnum frá sjúkrahúsinu, áður en beðið var um loftárás. Því neita Læknar án landamæra.


Tengdar fréttir

Vilja samstarf við Lækna án landamæra

Árás Bandaríkjahers á spítala í Kunduz í Afganistan er meðal umræðuefna á ráðherrafundi NATO í Brussel í dag. Megináhersla er þó á framkvæmd breytinga sem samþykktar voru í fyrra og viðbrögð við þróun heimsmála.

Bandaríkjaher biðst afsökunar í Afganistan

Læknar án landamæra segja bandaríska herinn viðurkenna alvarlegan stríðsglæp í samstarfi við afganska herinn. Loftárás á spítala í Kunduz kostaði 23 lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×