Erlent

Vissu að þeir væru að gera árás á sjúkrahús

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjúkrahúsið er stórskemmt eftir árásina.
Sjúkrahúsið er stórskemmt eftir árásina. Vísir/AFP
Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum vissu af sjúkrahúsi Lækna án landamæra í Kunduz í Afganistan, áður en loftárás var gerðar á sjúkrahúsið. Talið var að Talibanar væru að nota sjúkrahúsið sem birgðageymslu og stjórnstöð. Samkvæmt AP fréttaveitunni er þó ekki ljóst hvort að foringjar á svæðinu hafi vitað að um sjúkrahús væri að ræða.

Minnst 22 sjúklingar og starfsmenn létu lífið í árásinni.

Viðmælandi AP segir að greinendur hersins sem hafi fylgst með orrustunni um Kunduz og aflað upplýsinga fyrir þá sem börðust, hafi einnig talið að fjöldi vopna hefðu verið geymd í sjúkrahúsinu.

Yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Afganistan, John Campbell, hefur sagt að loftárásin hafi verið mistök. Hins vegar hefur hann ekki sagt hver gaf skipunina um árásina, né hvers vegna hún hafi verið gerð. Í fyrstu sögðu hernaðaryfirvöld að Talibanar hefðu skotið á hermenn frá sjúkrahúsinu, en það hefur verið dregið til baka.

Skotið fimm sinnum á sjúkrahúsið

Læknar án landamæra þvertaka fyrir að vígamenn Talibana hafi haldið til í sjúkrahúsinu og að vopn hafi verið geymd þar. Þeir segja að flugvélin sem gerði árásina hafi skotið fimm sinnum á sjúkrahúsið á rúmri klukkustund.

Yfirvöld í Bandaríkjunum og í Afganistan hafa sett af stað rannsóknir á því hvernig atvikið átti sér stað og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna hefur beðist afsökunar. LÁL kalla þó eftir alþjóðlegri rannsókn á árásinni.

Samtökin segja að þeir hafi hlúð að vígamönnum Talibana, en vopn hafi ekki verið leyfð á lóð sjúkrahússins. Þá hafa starfsmenn sjúkrahússins sem AP hefur rætt við sagt að engin skothríð frá sjúkrahúsinu hafi átt sér stað.


Tengdar fréttir

Talibanar hörfa frá Kunduz

Afganski stjórnarherinn hefur hrakið herlið Talibana frá borginni Kunduz í norður-Afganistan

Vilja samstarf við Lækna án landamæra

Árás Bandaríkjahers á spítala í Kunduz í Afganistan er meðal umræðuefna á ráðherrafundi NATO í Brussel í dag. Megináhersla er þó á framkvæmd breytinga sem samþykktar voru í fyrra og viðbrögð við þróun heimsmála.

Bandaríkjaher biðst afsökunar í Afganistan

Læknar án landamæra segja bandaríska herinn viðurkenna alvarlegan stríðsglæp í samstarfi við afganska herinn. Loftárás á spítala í Kunduz kostaði 23 lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×