Innlent

Skoða að stytta vinnuvikuna í 36 stundir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samningar náðust í kjaradeilu sjúkraliða, SFR og lögreglumanna við ríkið á sjötta tímanum í nótt. Mikið hefur mætt á ráðherrum vegna málsins.
Samningar náðust í kjaradeilu sjúkraliða, SFR og lögreglumanna við ríkið á sjötta tímanum í nótt. Mikið hefur mætt á ráðherrum vegna málsins. Vísir/GVA
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu þar sem stjórnvöld lýsa vilja til þess að kanna með tilraunaverkefni hvort unnt sé að stytta vinnutíma án launaskerðingar og ná fram gagnkvæmum ávinningi starfsfólks og stofnana. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefum ráðuneytanna.

Verkefnið er hluti af samkomulagi ríkisins við aðildarfélög BSRB. Skrifað var undir kjarasamninga við félagsmenn SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna í nótt.„Í framhaldi af þessum viðræðum lýsir ríkisstjórn Íslands sig reiðubúna til að beita sér fyrir því að koma á tilraunaverkefni þar sem vinnutími verður styttur án launaskerðingar, eins og fram kemur í viljayfirlýsingunni,“ segir í tilkynningunni.

Skoða framleiðni og árangur

Þar segir að markmið tlraunaverkefnsins verði að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega verði skoðað hvernig útfæra megi styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal á stofnunum þar sem unnin sé vaktavinna.

„Það fara nokkrar stofnanir í tilraun um hvað gerist ef menn laga vinnutímann aðeins til og þá sjáum við hvort framleiðni eða árangur stofnunarinnar verði sá sami þó svo vinnutímanum verði breytt. Þá miðum við jafnframt að því að styrkja stefnu okkar í fjölskylduvænna umhverfi og ákveðnir hlutir í menntunarumhverfi okkar félagsmanna sem verið er að lagfæra og gera tilraunir með,“ útskýrir Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR í samtali við Vísi.

Skila skýrslu sex mánuðum áður en samningar renna út

„Stofnaður verður starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneyta og BSRB og mögulega fleiri aðilum sem kunna að koma að verkefninu. Starfshópnum verður falið að skilgreina nánar markmið og aðferðir við útfærslu verkefnisins og hvernig meta skuli áhrif styttri vinnutíma á heilsu og vellíðan starfsfólks, starfsanda á vinnustöðum og á þjónustu viðkomandi vinnustaða með tilliti til gæða og hagkvæmni.“

Áætluð lok tilraunaverkefnis munu taka mið af gildistíma kjarasamninga sem undirritaðir voru í morgun og er gert ráð fyrir að starfshópur skili skýrslu um árangur þess a.m.k. sex mánuðum áður en samningarnir renna út eins og segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Þrjátíu prósenta launahækkun og styttri vinnuvika

Félagsmenn SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna munu á næstu þremur árum fá allt að þrjátíu og tveggja prósenta launahækkun. Þá munu félögin taka þátt í tilraunaverkefni sem miðar að því að stytta vinnuvikuna um fjórar klukkustundir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.