Holland tapaði báðum leikjum sínum gegn Íslandi í undankeppni EM 2016 sem kunnugt er og á það stóran þátt í því að það er veruleg hætta á því að þessi stórþjóð í knattspyrnu komist ekki á EM í Frakklandi.
Holland er í fjórða sæti A-riðils með þrettán stig, tveimur á eftir Tyrklandi. Ísland og Tékkland eru örugg áfram en þriðja sætið veitir að minnsta kosti þátttökurétt í umspili.
„Við verðum að gera það sem við getum - semsagt að vinna leikinn,“ sagði Arjen Robben. „Og svo þurfum við að biðja. Vona og kveikja á kerti.“
Sjá einnig: Terim: Ísland ber höfuð og herðar yfir önnur lið
Danny Blind, landsliðsþjálfari, tók við hollenska liðinu í sumar - og tapaði fyrir Íslandi á heimavelli í sínum fyrsta leik. Eftir það tók við 3-0 tap gegn Tyrkjum hér í Konya.
Hann heldur enn í vonina eftir nauman 2-1 sigur á Kasakstan ytra á laugardag en viðurkennir að EM-draumurinn hangir á bláþræði. „Staðan okkar er afar erfið.“

