Innlent

Brúin yfir Eldvatn stendur á lyginni einni

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Möguleiki er að brúin yfir Eldvatn við Ása fari í Skaftárhlaupinu. Áin hefur haldið áfram að grafa undan undirstöðum hennar í dag og landið hefur sigið.

Brúnni var lokað í gær vegna hættu sem myndaðist þegar áin tók að grafa undan undirstöðum hennar. Austan megin brúarinnar er sextán metra undirstaða en áin hefur náð að grafa sig meira en átta metra undir hana. Sérfræðingar Vegagerðarinnar hafa verið á staðnum í dag og metið stöðuna. „Það er töluvert vatn í ánni enn þá og undirstaðan er óstöðug eins og er,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson brúarverkfræðingur hjá Vegagerðinni. Hann segir að skoðað hafi verið að grípa til aðgerða til að hindra frekara tjón. Metið var sem svo að það myndi ekki skila árangri. „Ekki raunhæft og of áhættusamt held ég,“ segir Guðmundur Valur.

Lögreglan hefur girt svæðið af með borðum til að enginn hætti sér of nálægt henni. „ Við vonum að hún hangi. Sá möguleiki er alveg fyrir hendi að hún fari,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hann segir að þó töluvert hafi dregið úr rennsli Skaftár sé enn kraftur í hlaupinu. „Við erum enn þá að horfa á hækkun í vatninu við dyngjur,“ segir Sveinn og að töluvert sé að flæða inn í dyngjurnar. Þá segir Sveinn að þar flæði beggja vegna hringvegarins. „Þar fylgjumst við vel með en þar er svona eiginlega hættan á þjóðvegi 1 að það renni inn á,“ segir Sveinn.

Myndin sem fylgir fréttinni var tekin af lögreglunni á Suðurlandi.


Tengdar fréttir

„Þetta er alltaf að síga á ógæfuhliðina“

Miklar skemmdir hafa orðið á brúm, túnum og vegum vegna Skaftárhlaupsins. Þjóðvegur eitt er enn opinn þó vatn flæði víða beggja vegna við hann. Lögreglan er með viðbúnað ef til þess kemur að það þurfi að loka veginum síðar í dag eða á morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.