Erlent

Fiorina rís en fylgi Trump og Walker fellur í nýrri skoðanakönnun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fylgi Scott Walker hefur fallið niður í 0%
Fylgi Scott Walker hefur fallið niður í 0% Nordicphotos/AFP
Fylgi Donalds Trumps fellur úr 32 prósentum niður í 24 prósent og fylgi Carly Fiorina fimmfaldast, úr þremur prósentum og upp í fimmtán. Þetta kemur fram í nýrri könnun fréttastofu CNN sem gefin var út í gær.

Miklar breytingar urðu á fylgi þeirra repúblikana sem sækjast eftir útnefningu flokksins til forsetaframboðs á næsta ári í kjölfar kappræðna á miðvikudaginn. Trump kom einna verst út samkvæmt skoðanakönnun CNN en ef fylgistölurnar eru skoðaðar er Fiorina ótvíræður sigurvegari.

Skoðanakönnun CNN er áhyggjuefni fyrir fleiri frambjóðendur en Trump. Þrátt fyrir að hafa virst sigurstranglegastur fyrir nokkrum vikum og hundrað milljóna Bandaríkjadala kosningasjóð, stærri en kosningasjóður nokkurs annars frambjóðanda, hefur Jeb Bush nú mistekist í tvígang að nýta sér kappræður til að komast aftur í toppbaráttuna.

Scott Walker fær einnig skell í könnuninni og missir fylgi sitt. Nú mælist hann undir hálfu prósenti en í sumar var hann meðal efstu manna. Walker hefur hrapað úr tæplega tuttugu prósentum og niður á botn. Þá leiddi hann einnig lengi vel í Iowa en það ríki kýs frambjóðanda fyrst allra.

Trump þykir hins vegar líklegastur til að standa sig vel í efnahagsmálum, en 44 prósent aðspurðra treysta honum best í þeim málaflokki, mun fleiri en treysta Fiorina sem er í öðru sæti með ellefu prósent. Þá er Trump einnig vinsælastur í innflytjendamálum og treysta 47 prósent honum best. Marco Rubio er þar í öðru sæti með fimmtán prósent.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×