Erlent

Lögregla í Slóveníu beitti piparúða gegn flóttafólki

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Ungverjar saka króatísk stjórnvöld um að brotið alþjóðalög þegar hælisleitendur voru fluttir yfir landamærin að Króatíu, áður en fólkið var skráð.
Ungverjar saka króatísk stjórnvöld um að brotið alþjóðalög þegar hælisleitendur voru fluttir yfir landamærin að Króatíu, áður en fólkið var skráð. Vísir/EPA
Þúsundir flóttamanna sem flúið hafa stríðsátök og örbirgð í heimalöndum sínum eru strandaglópar í Króatíu. Fjölmargir freista þess nú að komast í gegnum landið til að halda leið sinni norður inn í Evrópu, þrátt fyrir tilraunir yfirvalda í Króatíu, Slóveníu og Ungverjalandi til að koma í veg fyrir það.

Lögreglumenn í Slóveníu beittu piparúða gegn hópi flóttamanna í gærkvöld þegar fólkið reyndi að reyndi komast yfir landamærin frá Króatíu.

Yfirvöld í Ungverjalandi saka króatísk stjórnvöld um að brotið alþjóðalög þegar hælisleitendur voru fluttir yfir landamærin að Króatíu, áður en fólkið var skráð.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að þúsundir flóttamanna, sem freista þess að komast til Austurríkis og Þýskalands í gegnum Balkanskaga, hafi gist á lestarstöðum og jafnvel undir berum himni við þjóðvegi og landamærastöðvar.

Aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur hingað til algjörlega mistekist að koma á samkomulagi um hvernig skuli takast á við vandann. Þannig hafa lönd eins og Ungverjaland, Slóvenía og Króatía, sem er eitt af fátækustu löndum sambandsins, gripið til þess að takmarka straum flóttafólks yfir landamæri sín eða hreinlega loka þeim líkt og Ungverjaland hefur nú gert.

Þarlend yfirvöld tilkynntu í morgun að búið væri að reisa grindverk og draga gaddavír meðfram rúmlega fjörutíu kílómetra löngum landamærum landsins að Króatíu. 

Samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, hefur hælisumsóknum fjölgað um áttatíu og fimm prósent í sambandinu frá sama tíma á síðasta ári. Í gögnum Eurostat kemur fram að heildarfjöldi hælisumsóknar á öðrum ársfjórðungi tvö þúsund og fimmtán nam tvö hundruð og þrettán þúsund.

Evrópusambandið hefur boðað til neyðarfundar vegna flóttamannavandans og mun hann fara fram næstkomandi miðvikudag.


Tengdar fréttir

ESB fundar um dreifingu flóttamanna um Evrópu

Flóttamenn Ríflega sjö þúsund flóttamenn hafa farið yfir landamæri Króatíu frá Serbíu á síðastliðnum tveimur sólarhringum. Ástæðan er lokun landamæra Ungverjalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×