Innlent

Fíkniefnin fundust í kjölfar áhættugreiningar tollayfirvalda

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Lögregla og tollverðir á Austurlandi lögðu hald á um 90 kíló af fíkniefnum á Seyðisfirði í gær. Um er að ræða eitt stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp á Íslandi. 

Efnin fundust í bíl sem kom hingað til lands með Norrænu, sem siglir á milli Íslands, Færeyja og Danmerkur og kemur til Seyðisfjarðar einu sinni í viku, en Stöð 2 var á staðnum í þegar Norræna kom til hafnar í gærmorgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu lögðu lögregla og tollverðir hald á 90 kíló af hvítum, hörðum efnum.

Efnin fundust í kjölfar áhættugreiningar tollsins á Íslandi í samvinnu við tollayfirvöld í Færeyjum og lögreglu á Íslandi. Nú er unnið að því að vigta efnið en þar til það er búið er erfitt að segja til um nákvæmt magn þess. Hollenskt par um fertugt var handtekið vegna málsins og úrskurðaði Héraðsdómur Austurlands það í tveggja vikna gæsluvarðhald.  

Samkvæmt heimildum fréttastofu kom parið með flugi frá Egilstöðum til Reykjavíkur rétt eftir klukkan fimm í dag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verst allra frétta af þessu umfangsmikla fíkniefnamáli og segir rannsókn þess alfarið í höndum lögreglunnar á Austurlandi. 

Málið er eitt það umfangsmesta sem komið hefur upp hér á landi og annað stóra fíkniefnamálið sem kemur upp í ár. Um síðastliðna páska voru hollenskar mæðgur stöðvaðar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með um 20 kíló af fíkniefnum. Íslenskur karlmaður var handtekinn í kjölfarið þar sem hann tók við pakkningu og tösku frá móðurinni við Hótel Frón á Laugavegi sem hann taldi vera fíkniefnin sem voru flutt til landsins. Var móðirin notuð í tálbeituaðgerð lögreglunnar til að ná viðtakanda fíkniefnanna. Lögreglan höfuðborgarsvæðinu kemur ekki að rannsókn málsins á Seyðisfirði, samkvæmt upplýsingum sem fengust í dag og verst allra fregna af málinu. Eftir því sem fréttastofa kemst næst sér lögreglan á austurlandi alfarið um rannsókn þessa umfangsmikla fíkniefnamáls. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.