Innlent

Amnesty frábiður sér afskipti annarra samtaka

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valli
Íslandsdeild Amnesty frábiður sér afskipti annarra samtaka af starfi deildarinnar, sem sat hjá við vændistillögu á heimsþingi Amnesty. Fjölmörg samtök skoruðu á deildina að leggjast gegn tillögu um afglæpavæðingu vændis, og hefur hún meðal annars verið sökuð um kjarkleysi.

Umræðan hefur verið hávær að undanförnu, enda ríkti trúnaður um tillöguna, en ýmis stjórnmála- og kvenréttindasamtök skoruðu á samtökin að leggjast gegn henni. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra gagnrýndi hana jafnframt og hvatti samtökin til að greiða atkvæði gegn tillögunni.

„Okkur var gert að halda trúnaði um það sem væri á seyði innan deildarinnar, sem var ekki góð staða, við verðum að geta fengið að geta talað frjálst og opið við okkar félaga um það sem við erum að gera. Eins eftir að þetta liggur fyrir að greina hratt og vel til okkar félaga um niðurstöðuna og þær röksemdir sem lágu fyrir þegar við tókum okkar niðurstöðu. Ég frábið mér hins vegar þegar önnur samtök ætla að stýra því sem er að gerast innan samtaka okkar eða þá ef fólk er að láta gífuryrði falla á netinu, annað hvort um málsmeðferðina eða okkur persónulega sem hafa staðið að þessu,“ segir Hörður Helgi Helgason, formaður Íslandsdeildar Amnesty.

Hörður segir að deildin hafi ekki geta stutt tillöguna á grundvelli þeirra gagna sem færð höfðu verið fram. Því hafi deildin ákveðið að útfæra sína eigin tillögu, sem raunar var felld í gær. Um var að ræða sænska leið þar sem ekki er lögð refsing við því að selja vændi, heldur verði það refsivert að kaupa vændi og gera út á vændisstarfsemi.

„Þrátt fyrir að búið sé að samþykkja þessa stefnu, þ.e búið að samþykkja það að þetta séu þau sjónarmið að heimsþingið og deildir víða um heim vilji leggja á borð stjórnar samtakanna þá er það hennar að setja hinna eiginlegu útfærðu stefnu og hún fær núna tækifæri til þess á sínum næsta fundi í haust. En við hérna á Íslandsdeildinni þurfum ekki að koma sérstaklega að málinu, ég sé ekki fyrir mér að það standi fyrir dyrum að við förum í einhverja sérstaka herferð vegna þessa. Þetta er bara ein af mjög mörgum stefnum sem við mörkum í mörgum málum,” segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×