Innlent

Amnesty International að skipuleggja eigin jarðarför

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Von Amnesty er að geta barist betur fyrir mannréttindum fólks í kynlífsiðnaðinum með afglæpavæðingu.
Von Amnesty er að geta barist betur fyrir mannréttindum fólks í kynlífsiðnaðinum með afglæpavæðingu. Fréttablaðið/AFP
„Það að Íslandsdeildin skuli sitja hjá finnst mér sýna einhvers konar kjarkleysi hjá félaginu,“ segir Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Heimsþing Amnesty International samþykkti á fundi sínum í Dyflinni í gær tillögu um að styðja við afglæpavæðingu vændis á alþjóðavísu. Íslandsdeild Amnesty sat hjá í atkvæðagreiðslunni auk þess sem samtökin stóðu að breytingartillögu sem var þó felld.

Fríða Rós Valdimarsdóttir
„Sjálf kynntist ég mannréttindabaráttu í gegn um Amnesty og þar var baráttan svona mest áberandi þegar ég var unglingur,“ segir Fríða. „Þannig að þetta er fyrir mér mikill sorgardagur að þessi samtök sem maður hefur stutt í mörg ár skuli taka þennan snúning og berjast á móti mannréttindabaráttunni sem þau hafa verið með.“

Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að vændi er skaðlegt og lögleiðing dragi ekki úr ofbeldi gegn vændisstarfsmönnum. Ofbeldi gagnvart fólki hafi minnkað með banni við kaupum á vændi.

„Nýjustu tölur frá Noregi sýna að ungir strákar hafa hætt að kaupa vændi sem er mjög merkilegt. Það er svo mikil skaðaminnkun í því og það er það sem oft gleymist í umræðunni að vændiskaupin eru líka skaðleg. Mér finnst eins og að Amnesty sé byrjað að skipuleggja eigin jarðarför með þessu.“

Hörður Helgi Helgason
Hörður Helgi Helgason, formaður Íslandsdeildar Amnesty International, segir að aðstæður íslensku samtakanna hafi verið erfiðar í aðdraganda þingsins þar sem trúnaður lá yfir tillögunni.

„Við áttum þá ekki möguleika á að leita opinberlega til okkar félaga heldur ræða við þá með óformlegum samtölum,“ segir hann. 

„Í lok júlí síðastliðins tók Íslandsdeildin á stjórnarfundi sínum hins vegar ákvörðun í málinu og taldi að athuguðu máli að hún gæti ekki stutt þessa tillögu sem lá fyrir vegna þess að gögn sem voru lögð fram henni til stuðnings væru ónóg. En þess utan samþykkti stjórnin að ganga til þingsins með opnum huga og hlusta þar á öll rök sem þar voru sett fram sem og við gerðum.“

Þá hafi umræðan um tillöguna á Íslandi verið fremur óupplýst. Hörður gagnrýnir Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fyrir að leggjast gegn tillögunni og gagnrýna Amnesty International.

„Það er sérstaklega neyðarlegt í ljósi þess að hann vísaði þessu til stuðnings í átakið HeForShe sem er á vegum UN Women en þau samtök hafa ekki einungis stutt það að þessi iðja verði afglæpavædd heldur beinlínis viðurkennd sem atvinnugrein.“ 

Tillaga Amnesty mætti harðri gagnrýni hér heima fyrir en auk gagnrýni Gunnars Braga hafa sjö kvenréttindasamtök gagnrýnt tillöguna harðlega auk þess sem þingflokkur VG skoraði á Íslandsdeildina að hafna tillögunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×