Erlent

Pistorius ekki sleppt á föstudaginn

Samúel Karl Ólason skrifar
Oscar Pistorius.
Oscar Pistorius. Vísir/EPA
Dómsmálaráðuneyti Suður-Afríku hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin um að veita Oscar Pistorius reynslulausn hafi verið ótímabær og án lagastoða. Starfsmenn dómsmálaráðuneytisins könnuðu hvort tilefni væri til að koma í veg fyrir að Oscar Pistorius yrði sleppt snemma úr fangelsi.

Pistorius var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa orðið kærustu sinni Reeva Steenkamp að bana á heimili þeirra. Hins vegar hefur hann einungis setið inni í tíu mánuði. Samkvæmt lögum á Pistorius möguleika á reynslulausn eftir að hafa afplánað einn sjötta af fangelsisdómi sínum.

Hefði honum verið sleppt þyrfti hann þó að sitja út fangavist sína í stofufangelsi á heimili sínu. Ákvörðunin um hvort hann hljóti reynslulausn hefur verið send aftur til reynslulausnanefndarinnar.

Kvennahreyfingar í landinu hafa mótmælt því að Pistorius hafi hlotið reynslulausn, samkvæmt BBC, og segja það hafa verið hneyksli og móðgun við þolendur heimilisofbeldis.

Þá hafa foreldrar Steenkamp sagt að Pistorius hafi ekki setið inni nægilega lengi fyrir að taka mannslíf. Þar að hafa saksóknarar í Suður-Afríku lagt fram beiðni um að dómi Pistorius verði breytt í morð. Þá yrði hann að sitja inni í minnst 15 ár. Lögfræðingar hans hafa mánuð til að svara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×