„Helst af öllu vil ég afnema mannanafnalög,“ segir Ólöf um þá vinnu sem verið hefur í gangi. Hún segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi lögin.
„Ég held að það eigi að vera þannig að foreldrar eigi að ákveða sjálfir hvað börnin þeirra eigi að heita.“
Ólöf var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Hvað ef foreldrar vilja skíra barnið Satan?
Það sem helst virðist standa í vegi fyrir því að fólk vilji ganga jafnlangt og Ólöf er varnaglinn að fólk geti ekki nefnt börn sín nöfnum sem geti komið þeim illa. Hvað ef foreldrar ákveða að skíra barn sitt Satan?
Ólöf spyr á móti hvort sömu foreldrum sé þá treystandi til að ala upp börnin sín. Eiga þau ekki alltaf að hafa hag barnanna að leiðarljósi? Önnur lög, svo sem barnalög, gætu komið til kastanna ef þannig mál kæmu upp.

Þótt Ólöf vilji ekki ræða einstök dæmi finnist henni afar skrýtið að ekki megi skíra börn nafni úr menningarheimi foreldra. Íslendingum þætti væntanlega skrýtið ef þeir fengju ekki að skíra börnin í höfuðið á foreldrum sínum væru þau búsett erlendis.

Aðspurð um samanburð við nágrannalöndin segir Ólöf það vera í skoðun. Hún telur lög sambærileg þeim sem mannanafnanefnd vinnur eftir ekki þar að finna.
„Rótin hjá okkur er að vernda íslenska tungu enda erum við svo lítið málssvæði. Mér finnst að við eigum að gera það. En mannanöfn eru kannski ekki lykilatriði.“
Ólöf ætlar að leggja fram frumvarp í haust og ítrekar sjálf að hún vilji helst afnema lögin. Hún er þó efins um að svo róttækt frumvarp næði í gegnum þingið.
Hún minnir á að Óttar Proppe, þingmaður Bjartrar framtíðar, hafi lagt fram frumvarp á síðasta þingi sem hafi ekki verið afgreitt. Um sé að ræða sameiginlegt áhugamál sem þau Óttar ræði oft.
„Í því frumvarpi var ekki skrefið gengið til fulls þótt veruleg rýmkun hafi verið á ferðinni.“