Fótbolti

Stjörnuleikmaður Síle handtekinn í miðri Suður-Ameríkukeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arturo Vidal.
Arturo Vidal. Vísir/Getty
Arturo Vidal, miðjumaður Juventus og Síle, átti ekki góðan dag í gær en hann endaði með því að þessi snjalli leikmaður var fluttur í burtu í lögreglubíl.

Landslið Síle er í miðri Suður-Ameríkukeppni sem fer fram á heimaslóðum og hefur byrjað keppnina ágætlega með sigri og jafntefli í tveimur leikjum.

Arturo Vidal var handtekinn fyrir að keyra undir áhrifum en hann klessti Ferrari-bíl sinn í úthverfi Santiago-borgar. Vidal meiddist ekki mikið en bílinn er langt frá því að vera ökufær.

Vidal sást yfirgefa æfingasvæði Sílemanna á sama Ferrari-bíl fyrr um daginn en næsti leikur Síle í keppninni er á móti Bólivíu 19. júní.

Arturo Vidal þarf að koma fyrir dómara í dag. „Til allrar óhamingju þá lenti ég í umferðaslysi. Sem betur fer eru allir ómeiddir og rólegri. Takk fyrir áhyggjurnar," skrifaði Arturo Vidal á twitter-síðu sína.

Arturo Vidal hefur þegar skorað þrjú mörk í keppninni og er eins og er markahæsti maður hennar. Hann skoraði tvö í 3-3 jafntefli á móti Mexíkó og eitt mark í sigri á Ekvador.  Það má sjá mörkin úr þessum leikjum hér fyrir neðan.

Það er ljóst á öllu að Síle má alls ekki við því að missa kappann ef liðið ætlar sér að gera einhverja hluti í keppninni. Það má þó búast við því að Arturo Vidal þurfi ekki að hafa áhyggjur af refsingu fyrr en eftir að Suður-Ameríkukeppninni lýkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×