Fótbolti

Frábært skallamark Aguero bjargaði Argentínu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero fagnar hér sigurmarki sínu.
Sergio Aguero fagnar hér sigurmarki sínu. Vísir/EPA
Sergio Aguero, markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar í vetur, kom Argentínumönnum til bjargar í nótt í öðrum leik liðsins í Suður-Ameríkukeppninni í Síle.

Sergio Aguero skoraði eina mark leiksins þegar Argentína vann 1-0 sigur á Úrúgvæ í öðrum leik liðanna í riðlinum en Argentínumenn náðu aðeins jafntefli á móti Paragvæ í fyrsta leiknum.

Úrúgvæmenn eru ríkjandi Suður-Ameríkumeistarar en leika án Luis Suarez sem er enn að taka út leikbann með landsliðinu eftir bitið fræga á HM í Brasilíu í fyrra.

Það var hart tekist á í leiknum í nótt og hann var hreinlega grófur. Argentínumenn voru þó betra liðið og átti sigurinn fyllilega skilinn.

Úrúgvæmenn gáfu samt ekkert eftir á móti Lionel Messi og félögum og náðu að skapa sér færi sem hefðu getað stolið stigi í leiknum en það var markalaust í hálfleik.

Sigurmark Sergio Aguero kom á 56. mínútu leiksins en hann skoraði þá með frábærum skalla á nærstöng eftir fyrirgjöf frá liðsfélaga sínum í Manchester City, Pablo Zabaleta. Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leiknum og þar á meðal þetta laglega sigurmark.

Argentína mætir nú Jamaíku í lokaleiknum en Jamaíkamennirnir eiga ekki lengur möguleika á því að komast áfram. Úrúgvæ hefur einu stigi minni í þriðja sæti riðilsins og þarf helst stig í lokaleiknum til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×