Innlent

VR frestar verkföllum

Bjarki Ármannsson skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
Verkfallsaðgerðum VR, LÍV, Flóabandalagsins og Stéttarfélags Vesturlands, sem áttu að hefjast þann 28. maí næstkomandi, hefur verið frestað um fimm sólarhringa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR sem var að berast fjölmiðlum.

Forsvarsmenn samninganefnda samtakanna og Samtaka atvinnulífsins hafa náð samkomulagi um frestun, að því er segir í tilkynningunni, en ekki verður upplýst um einstaka efnisþætti viðræðna fyrr en gengið hefur verið frá drögum að samningi sem lögð verða fyrir samninganefndir félaganna.

„Þegar tekin er ákvörðun um að fresta verkföllum, þá gefur það auga leið að hér eru menn eitthvað að tala saman,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. „En það er ekki komin nein endanleg útfærsla á eitt né neitt, einfaldlega vegna þess að við þurfum að koma þeim gögnum inn í samningahópana okkar annað kvöld áður en við getum eitthvað haldið áfram.“

Ólafía segir að stemningin í samningahópnum sé orðin betri en hún var, en aðeins fyrir örfáum dögum benti allt til þess að til verkfalla kæmi.

„Við erum bara búin að funda hér stíft síðustu daga,“ segir hún, aðspurð um það hvað hafi gerst í millitíðinni. „Svo tókum við þá ákvörðun í gærkvöldi að flytja málið í þennan farveg og kynna það fyrir samninganefndunum okkar. Þá getum við séð hvort við höldum áfram.“

Stefnt er að því að niðurstaða samningahópanna liggi fyrir eigi síðar en 28. maí.


Tengdar fréttir

Félagsmenn VR samþykkja verkfall

Kosið var um verkfall meðal þeirra sem starfa í fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins og Félags atvinnurekenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×