Íslenski boltinn

Krakkar frá 20 þjóðlöndum leiða leikmenn Leiknis og ÍA inn á völlinn í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Frymezim Veselaj er einn af fjölmörgum krökkum af erlendu bergi brotnir sem æfa með Leikni.
Frymezim Veselaj er einn af fjölmörgum krökkum af erlendu bergi brotnir sem æfa með Leikni. vísir/stefán/leiknir
Nýliðaslagur er á dagskrá í Pepsi-deildinni í kvöld þegar Leiknir og ÍA mætast á Leiknisvelli. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 19.15.

Þetta er fyrsti heimaleikur Leiknis í efstu deild, en Skagamenn eru öllu vanari enda átjánfaldir Íslandsmeistarar.

Leiknismenn ætla nýta sviðsljósið sem félagið verður í í kvöld til að sýna sitt verðlaunaða yngri flokka starf.

Krakkar frá yfir 20 þjóðlöndum æfa hjá Leikni og munu þau leiða leikmenn liðanna inn á völlinn í kvöld.

„Með þessum gjörningi okkar ætlum við ekki aðeins að sýna hversu félagið er stolt af fjölbreyttum bakgrunni iðkenda þess heldur er félagið líka að taka undir afstöðu Alþjóðaknattspyrnusambandsins,“ segir Sigríður Agnes Jónasdóttir, formaður meistaraflokksráðs Leiknis.

„Leiknir hefur ávallt verið meðvitað að útrýma fordómum innan félagsins og fagnað þeirri flóru af iðkendum af ólíkum uppruna sem æfa með félaginu.“

„Nú er vilji til að sýna með stolti hve margir iðkendur hjá félaginu sem eru af erlendu bergi brotnir og hvernig þetta snýst allt um íþróttina og ekkert hvernig Leiknir fagnar því að iðkendur séu ólíkir og hafi ólíkan menningarlegan bakgrunn,“ segir Sigríður.

Þórður Einarsson, framkvæmdastjóri Leiknis, fékk jafnréttisverðlaun KSÍ á síðasta ársþingi fyrir sitt framlag til að tryggja að börn fái tækifæri til að æfa knattspyrnu óháð fjölskylduaðstæðum og/eða uppruna.

Einn leikmaður af erlendu bergi brotinn sem kom upp í gegnum yngri flokka Leiknis var í leikmannahópnum gegn Val í fyrstu umferðinni og kom inn á sem varamaður.

Frymezim Veselaj, strákur af albönskum uppruna fæddur 1995, er ein af vonarstjörnum félagsins. Hann spilaði stórvel á undirbúningstímailinu og á vafalítið eftir að vekja athygli í sumar.

Krakkar frá þessum þjóðum æfa með Leikni: Bandaríkjunum, Danmörku, Filipseyjum, Nýju-Gíneu, Íslandi, Kósóvó, Nepal, Nígeríu, Spáni, Srí Lanka, Tansaníu, Marokkó, Albanía, Angóla, Gana, Jamaíku, Litháen, Rússlandi, Serbíu, Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×